Erlent

Kona fannst látin og tíu enn saknað

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mynd úr bænum Casamicciola í dag. Fjöldi bíla fóru með skriðunni í morgun.
Mynd úr bænum Casamicciola í dag. Fjöldi bíla fóru með skriðunni í morgun. vísir/ap/Salvatore Laporta

Yfirvöld á Ítalíu hafa staðfest að kona hafi fundist látin eftir stóra aurskriðu sem féll yfir hluta bæjarins Casamicciola á eyjunni Ischia í morgun. Tíu er enn saknað.

Rignt hafði gríðarlega á eyjunni, sem stendur við Napólíflóa, í alla nótt. Aðstæður við björgunaraðgerðir hafa verið afar erfiðar í dag þar sem haldið hefur áfram að rigna talsvert.

Matteo Salvini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, sagði í morgun að átta hefðu látist í aurskriðunni. Það var síðar dregið til baka og nú hafa yfirvöld aðeins staðfest að ein kona hafi fundist látin en tíu sé enn saknað.

Íbúar rölta um óþekkjanlegan bæ sinn í dag.vísir/ap

Rafmagnslaust er á svæðinu hafa í kring um 30 fjölskyldur setið fastar á heimilum sínum í smábænum Lacco Ameno, við hlið Casamicciola, þar sem nokkrar byggingar hafa hrunið. Um 20 þúsund manns búa á eyjunni en hún er afar vinsæll túristastaður.

„Staðan er afar flókin. Mörg húsanna voru rifin upp með rótum í aurskriðunni,“ er haft eftir lögreglustjóranum Tiziano Lagana í erlendum miðlum.

Stór hnullungur endaði fyrir utan þessa búð í Casamicciola í skriðunni.vísir/ap/Salvatore Laporta

Hluti þeirra sem var saknað fyrr í dag fundust heilir á húfi við leitaraðgerðir, þar á meðal fjölskylda með nýfætt barn. Einn maður á sjötugsaldri liggur á spítala alvarlega slasaður.

Rignt hefur mikið á Ítalíu síðustu vikuna. Sveitarstjóri Ischia segir að flætt hafi talsvert inn í mörg hús en hvergi sé ástandið eins alvarlegt og í Casamicciola þar sem aurskriðan féll. Þrettán létust í flóðum á Marche-svæðinu á meginlandi Ítalíu í síðasta septembermánuði.

Mörg húsanna á svæðinu eru á kafi í aur.vísir/ap/Salvatore Laporta
Björgunarliðar reyna að hreinsa göturnar af mold.vísir/ap/Salvatore Laporta
Bílar skoluðust margir alveg niður að strönd með skriðunni.vísir/ap/Salvatore Laporta


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×