Ganverjar bitu frá sér en Portúgal tók stigin þrjú

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ronaldo og félagar hófu HM á sigri.
Ronaldo og félagar hófu HM á sigri. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu höfðu betur í sínum fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í Katar er liðið vann 3-2 sigur gegn Gana í fjörugum leik þar sem öll fimm mörkin voru skoruð í síðari hálfleik.

Portúgalska liðið var hættulegra í fyrri hálfleik og var það áðurnefndur Ronaldo sem komst næst því að skora fyrir hlé. Það tókst þó ekki og staðan var því enn markalaus þegar liðin gengu inn til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur olli þó engum vonbrigðum og þar fengu áhorfendur að sjá fimm mörk.

Cristiano Ronaldo kom Portúgal yfir á 65. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur áður en André Ayew jafnaði metin fyrir Ganverja átta mínútum síðar.

Portúgalska liðið var þó ekki lengi að svara fyrir sig og Joao Felix kom liðinu yfir á nýjan leik á 78. mínútu áður en Rafael Leao breytti stöðunni í 3-1 tveimur mínútum síðar.

Varamaðurinn Osman Bukari minnkaði muninn fyrir Ganverja stuttu fyrir lok venjulegs leiktíma, en þrátt fyrir níu mínútna uppbótartíma tókst liðinu ekki að finna jöfnunarmarkið og niðurstaðan því 3-2 sigur Portúgal.

Portúgalska liðið lyftir sér því á topp H-riðils með þrjú stig, en Úrúgvæ og Suður-Kórea deila öðru og þriðja sæti með eitt stig hvort. Ganverjar reka hins vegar lestina án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira