Innlent

Rann­sókn á hryðju­verka­máli langt komin og styttist í á­kæru­frest

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrívíddarprentari sem lagt var hald á í aðgerðum lögreglu í rannsókninni á mönnunum tveimur.
Þrívíddarprentari sem lagt var hald á í aðgerðum lögreglu í rannsókninni á mönnunum tveimur. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari sækist eftir að tveir menn sem eru grunaðir um skipulagningu hryðjuverka og brot á vopnalögum verði áfram í gæsluvarðhaldi. Rannsókn er langt á veg komin en ákærufrestur í málinu rennur út um miðjan desember.

Tveir karlmenn hafa verið í gæsluvarðhaldi frá því að þeir voru handteknir grunaðir um skipulagningu hryðjuverka og brot á vopnalögum í seinni hluta september. Á meðal þess sem fannst í fórum þeirra voru þrívíddarprentuð skotvopn.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, staðfestir í samtali við Vísi að óskað verði eftir áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhaldi yfir þeim á morgun. Mennirnir hafa sætt einangrun hluta tímans sem þeir hafa verið í varðhaldi og ekki er gerð krafa um það nú. Mbl.is sagði fyrst frá.

Hægt er að halda sakborningum í gæsluvarðhaldi í allt að tólf vikur án ákæru en sá frestur rennur út um miðjan desember. Karl Ingi segir of snemmt að segja hvort að ákæra verði gefin út í málinu og vill ekki spá fyrir um hvort og hvenær hún yrði lögð fram.

Rannsóknin á meintum brotum mannanna sé langt á veg komin. Annars vegar beinist rannsóknin að brotum á almennum hegningarlögum hvað varðar hryðjuverk en hins vegar brotum á vopnalögum. 

Fleiri einstaklingar hafa stöðu sakbornings í rannsókninni á mögulegum vopnalagabrotum. Karl Ingi segir að þeir séu nokkrir, innan við tíu talsins. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, sagði sig frá rannsókn málsins eftir að nafn föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, kom upp við rannsóknina. Fjölmiðlar hafa greint frá ásökunum um að hann kunni að hafa selt ólögleg vopn. Héraðssaksóknari hefur ekki viljað greina frá hvaða stöðu Guðjón hafi í rannsókn málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×