Innlent

Ölvaður maður slasaðist í raf­hjóla­slysi

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið varð á göngustíg í Grafarvogi um klukkan 17 í gær.
Slysið varð á göngustíg í Grafarvogi um klukkan 17 í gær. Vísir

Maður var fluttur á bráðadeild Landspítalans eftir að hafa misst stjórn á rafhjóli sínu þar sem hann var að hjóla í Grafarvogi í Reykjavík um klukkan 17 í gær.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi ekið rafhjóli sínu á göngustíg og misst stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að hann hafnaði á handriði sem var við göngustíginn.

Vitni að atvikinu eru sögð hafa sagt manninn hafa verið á miklum hraða þegar hann missti stjórn á hjólinu.

„Vitnið fór og aðstoðaði manninn þar sem hann lá á jörðinni. Sjúkrabifreið flutti manninn til aðhlynningar á Bráðadeild en ekki er vitað um áverka. Maðurinn er grunaður um ölvun við akstur þ.e. stjórnað eða reynt að stjórna reiðhjóli undir áhrifum áfengis,“ segir í tilkynningunni.

Slys á Heiðmerkurvegi

Um klukkan 23 í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys á Heiðmerkurvegi , í Garðabæ. Þar segir að um útafakstur hafi verið að ræða og að loftpúðar bílsins hafi opnast.

Fram kemur að sjúkrabíll hafi verið á vettvangi og að ekki sé vitað um meiðsl. Krókur flutti bílinn af vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×