Fótbolti

Hafa miklar áhyggjur af ökkla Kane - fer í myndatöku í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fann vel fyrir tæklingunni frá Morteza Pouraliganji eins og sést hér.
Harry Kane fann vel fyrir tæklingunni frá Morteza Pouraliganji eins og sést hér. AP/Hassan Ammar

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, meiddist á ökkla í fyrsta leik liðsins á HM í Katar og þrátt fyrir að landsliðsþjálfarinn hafi gert lítið úr meiðslunum er ljóst að þau gætu verið mun verri en í fyrstu var haldið.

Hinn 29 ára gamli Kane var tekinn af velli fjórtán mínútum fyrir leikslok á móti Íran eftir að hafa lenti í harðri tæklingu frá Írananum Morteza Pouraliganji.

Kane yfirgaf leikvanginn eftir leik með umbúðir á hægri ökklanum.

Erlendir miðlar segja frá því að Kane þurfi að fara í myndatöku í dag. Ekki er ljóst hvort um varúðarráðstöfun sé að ræða eða hvort að Kane sé svona slæmur í ökklanum. Myndatakan sýnir þó að enskir hafa miklar áhyggjur af ökkla Kane.

Það sem gerir menn svo áhyggjusama yfir þessum meiðslum er að Kane á að baki erfiðleika með ökklana sína en hann meiddist bæði 2018 og 2019.

Kane skoraði ekki í 6-2 sigrinum en lagði upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.

Hann hefur skorað 51 mark í 76 landsleikjum og þarf tvö mörk til að jafna markamet Wayne Rooney. Kane varð markakóngur síðasta heimsmeistaramóts.

Það er smá vesen á fleiri enskum leikmönnum. James Maddison er enn frá æfingum og Harry Maguire glímir við veikindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×