Fótbolti

Eigendur United íhuga að selja félagið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Avram Glazer er einn eigenda Manchester United.
Avram Glazer er einn eigenda Manchester United. Martin Rickett/PA Images via Getty Images

Eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, Glazer-fjölskyldan, íhuga nú að selja félagið eftir að hafa átt það í 17 ár.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu, en ef marka má heimildir miðilsins eru eigendurnir nú að undirbúa það að tilkynna tilætlanir sínar um að skoða möguleika á utanaðkomandi fjárfestum sem gæti falið í sér að selja þetta líklega frægasta íþróttalið heims.

Samkvæmt heimildarmönnum Sky Sports hafa eigendur félagsins veitt fjárfestum fyrirmæli um að veita ráðgjöf um ferlið sem gæti falið í sér sölu félagsins í heild, eða að hluta. Þessir sömu heimildarmenn búast við yfirlýsingu frá félaginu á næstu dögum.

Eigendur félagsins, Glazer-fjölskyldan, hefur ekki alltaf verið í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins. Stuðningsmennirnir hafa ítrekað skipulagt mótæli og hótað því að sniðganga leiki sökum þess að þeim þykir liðið hafa staðið í stað undanfarin ár.

Liðið hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina síðan Sir Alex Ferguson yfirgaf félagið árið 2013 og síðan þá hefur liðið skipt ört um knattspyrnustjóra með misgóðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×