Erlent

For­dæma­laus sýn á and­rúms­loft fjar­reiki­stjörnu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuteiknuð mynd af WASP-39b.
Tölvuteiknuð mynd af WASP-39b. NASA

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur birt nýjar mynd sem tekin var með James Webb geimsjónaukanum. Um er að ræða litrófsgreiningu af andrúmslofti fjarlægs gasrisa en greiningin hefur varpað ljósi á hvaða efni finna má í andrúmslofti reikistjörnunnar og er það í fyrsta sinn sem geimvísindamenn öðlast svo nákvæm gögn af þessu tagi.

Litrófsgreiningin var gerð á andrúmslofti gasrisans WASP-39b sem er á braut um stjörnu sem svipar til sólarinnar okkar í um 700 ljósára fjarlægð. Með því að greina það hvaða áhrif andrúmsloft reikistjarna hefur á ljósgeisla sem fara í gegnum það má greina innihald andrúmsloftsins .

Meðal þess sem fannst í andrúmslofti gasrisans er koltvísýringur, kalín, vatn, brennisteinsdíoxíð og sódíum. Þá fundust skýr merki efnabreytinga vegna ljóss, sem er samkvæmt NASA ein af grunnstoðum lífs hér á jörðinni.

Niðurstöðurnar þykja benda til þess að vel muni ganga að gera sambærilegar greiningar á andrúmslofti annarra fjarreikistjarna, eins og til að mynda í TRAPPIST-sólkerfinu.

Sjá einnig: Trappist-sólkerfið talið ríkt af vatni

Á vef NASA er haft eftir vísindamönnum sem komu að því að gera litrófsgreininguna að þeir hafi verið búnir að spá fyrir um hvaða efni þeir myndu sjá í andrúmslofti WASP-39b. Nákvæmni Webb hafi þó komið þeim á óvart og farið langt fram úr væntingum.

Það muni gera rannsóknir á öðrum fjarreikistjörnum mjög spennandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×