Fótbolti

Belgía tapaði ó­vænt síðasta leiknum fyrir HM | Stór­sigur hjá Serbíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dušan Tadić skoraði tvívegis í kvöld.
Dušan Tadić skoraði tvívegis í kvöld. Jurij Kodrun/Getty Images

Belgía tapaði 2-1 fyrir Egyptalandi í síðasta leik sínum fyrir HM í Katar sem hefst á sunnudaginn. Þá vann Serbía 5-1 sigur á Barein.

Belgía stillti upp nánast sínu besta liði með Kevin De Bruyne fremstan í fararbroddi. Það var hins vegar Mostafa Mohamed sem kom Egyptalandi yfir eftir rúmlega hálftíma og staðan 1-0 Egyptalandi í vil þegar gengið var til búningsherbergja.

Trezeguet tvöfaldaði forystuna á fyrstu mínútu síðari hálfleik þökk sé stoðsendingu Mohamed Salah. Lois Openda minnkaði muninn fyrir Belgíu þegar stundarfjórðungur var eftir og þar við sat. Egyptaland vann 2-1 sigur og ekki beint þau úrslit sem Belgía hefði viljað í aðdraganda HM.

Serbía valtaði fyrir Barein í síðari hálfleik en staðan í hálfleik var 1-1. Lokatölur 5-1 þar sem Dušan Tadić skoraði tvívegis á meðan Dušan Vlahović, Filip Đuričić og Luka Jović skoruðu eitt hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×