Innlent

Þrír fluttir á bráða­­móttöku eftir hnífs­stungur á Banka­­stræti Club

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglukonur með sjúkabörur á vettvangi í kvöld.
Lögreglukonur með sjúkabörur á vettvangi í kvöld.

Þrír voru fluttir með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans eftir að til átaka kom á skemmtistaðnum Bankastræti Club við samnefnda götu í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum í kvöld. 

Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að óskað hafi verið eftir aðstoð um klukkan hálf tólf í kvöld. Þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang og voru þrír fluttir á bráðamóttöku Landspítalans með áverka eftir hnífsstungu.

Nokkur fjöldi lögreglumanna mætti á vettvang.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því að mikill viðbúnaður hefði verið hjá lögreglu við skemmtistaðinn. Haft var eftir sjónarvottum að sérsveitarmenn, sem leggja almennum lögreglumönnum lið þegar grunur leikur á um að aðilar séu vopnaðir, hafi farið inn á skemmtistaðinn.

Sjúkrabílar og lögreglubílar voru á svæðinu.

Skemmtistaðurinn hafi verið rýmdur, slökkt á tónlistinni og hugað að hinum slösuðu. Vitni lýsa því að einstaklingar sem huldu andlit sitt hafi hlaupið inn á skemmtistaðinn og síðar flúið hann á hlaupum og horfið á brott á bíl.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu hafði ekki upplýsingar um líðan hinna slösuðu að svo stöddu. Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.

Bankastræti Club var opnaður í júlí í fyrra af Birgittu Líf Björnsdóttur, markaðsstjóra World Class. Árum saman var skemmtistaðurinn b5 starfræktur í húsnæðinu en nafnið vísar til heimilisfangsins, Bankastrætis 5. Bankastræti Club er aðallega sóttur af fólki á þrítugsaldri.


Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á ritstjorn@visir.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×