Fótbolti

Piteå segir takk og bless við Hlín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir á ferðinni með Val í deildinni hér heima.
Hlín Eiríksdóttir á ferðinni með Val í deildinni hér heima. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir spilar ekki áfram með sænska liðinu Piteå.

Piteå staðfesti þessar fréttir á samfélagsmiðlum sínum þar sem Hlín fékk kveðjur og þakkir fyrir árin tvö hjá félaginu.

Þetta voru tvö fyrstu ár Hlínar í atvinnumennsku. Hún missti mikið úr vegna meiðsla á fyrra tímabili sínu en sýndi styrk sinn á nýloknu tímabili.

Hlín var langmarkahæsti íslenski leikmaðurinn í sænsku deildinni og sú sjöunda markahæsta í deildinni með tíu mörk í 26 leikjum.

Hlín var alls með ellefu mörk í 39 leikjum með Piteå í deildinni þessi tvö tímabil.

Eftir þetta frábæra tímabil má búast við því að sterkari lið deildarinnar hafi áhuga á að semja við íslenska landsliðkonuna.

Hlín komst ekki í EM-hópinn í sumar en var í hópnum í landsleikjunum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×