Innlent

Aukin hætta á skriðuföllum fyrir austan

Samúel Karl Ólason skrifar
Spáð er ósamfelldri rigningu á Austurlandi næstu rúmu vikuna. Veðurstofan spáir mikilli rigningu fyrir austan seinna í þessari viku.
Spáð er ósamfelldri rigningu á Austurlandi næstu rúmu vikuna. Veðurstofan spáir mikilli rigningu fyrir austan seinna í þessari viku. Veðurstofa Íslands

Rigningin á Seyðisfirði mældist tæplega tvö hundruð millimetrar síðustu vikuna. Vegna mikillar rigningu á Suðausturlandi og Austurfjörðum síðustu viku má gera ráð fyrir að grunnvatnsstaða sé há víða á svæðinu. Enn er spáð rigningu á svæðinu í meira en viku.

Í bloggfærslu sem birt var á vef Veðurstofunnar í gærmorgun segir að þar sem grunnvatnsstaða sé há og spá sé talsverðri úrkomu, geti skapast aukin hætta á skriðuföllum á þessum slóðum.

Í annarri færslu sem birt var seinna í gær segir að búist sé við áframhaldandi rigningu á svæðinu. Vatnshæð í flestum borholum á Seyðisfirði og Eskifirði sé há en hafi þó lækkað frá því sem mest var.

Þar segir enn fremur að fylgst sé með hreyfingu í Neðri-Botnum á Seyðisfirði með alstöðvarmælingum á speglum, GPS mælingum, radarmælingum og aflögunarmæli. Hreyfing hafi orðið á Búðarhrygg á föstudag en hún virðist hafa stöðvast. Í fyrra hreyfðist sá hryggur um meira en metra á nokkrum vikum.

Einnig hafa sést merki um hreyfingu í Þófa en hún var minni.

„Hreyfingin sem sást núna er lítil og hefur stöðvast eða minnkað. Hún er mun minni og hægari en hreyfingin sem varð á hryggnum við Búðará í fyrra og gefur ekki tilefni til aðgerða. Viðbúið er að grunnvatnsstaða haldist áfram há í vætutíðinni sem er framundan og fylgjast þarf með aðstæðum þó að úrkoma verði ekki mikil næstu daga,“ segir í færslunni.

Veðurstofan spáir áframhaldandi rigningu á þessu svæði eins og sjá má á ofankomuspánni á vef Veðurstofunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.