Innlent

Fjöldi um­sókna vegna lýta­að­gerða hefur tæp­lega þre­faldast

Árni Sæberg skrifar
María Heimisdóttir er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Stöð 2/Sigurjón

Umsvif Sjúkratrygginga Íslands hafa aukist mikið frá árinu 2018. Til að mynda gerðu þær í fyrra tæplega þrefalt fleiri nýja samninga en árið 2018. Þá hefur umsóknum vegna lýtaaðgerða fjölgað um 184 prósent og umsóknum vegna aðgerða erlendis fjölgað um 269 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem farið er yfir helstu tölulegu upplýsingar fyrir árin 2018 til 2022.

Þar segir að veruleg fjölgun hafi orðið í nær öllum flokkum erinda og umsókna til Sjúkratrygginga. Auk aukningar í umsóknum  um lýtaðgerðir og aðgerðir erlendis ber þar hæst tæplega tvöföldun fjölda umsókna vegna talþjálfunar, tvöföldun fjölda umsókna um lyfjaskírteini og ríflega þriðjungsfjölgun umsókna vegna tannlækninga.

Upplýsingarnar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Sjúkratryggingar Íslands

Athygli vekur að þrátt fyrir að fjöldi umsókna vegna sjúklingatryggingar hafi aukist um fjórðung, hefur fjöldi afgreiddra mála lækkað um rúmlega þriðjung.

Heilbrigðisstefna skýrir aukningu í fjölda samninga

Sem áður segir gerðu Sjúkratryggingar Íslands nánast þrefalt fleiri nýja samninga á síðasta ári en árið 2018 en það er árið áður en heilbrigðisstefna var gefin út.

Í tilkynningu SÍ segir að aukninguna árið 2021 megi að hluta til rekja til heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Það sem af er ári hafa þó verið gerðir ríflega þriðjungi fleiri samningar en allt árið 2018.

„Þessi mikla aukning í nýjum samningum er þrátt fyrir að ekki hafi enn náðst samningar um þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna. Sú vinna sem lögð hefur verið í þær samningaviðræður af hálfu Sjúkratrygginga kemur því ekki fram í þessum tölum. Af þeim 72 samningum sem gerðir voru árið 2021 voru fjórir við ríkisstofnanir, átta við sveitarfélög en 60 við einkaaðila, sjálfseignarstofnanir, hlutafélög o.s.frv.,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að þessa auknu framleiðni SÍ megi rekja til krafna heilbrigðisstefnu, sem sett var árið 2019, og auknum framlögum til heilbrigðisþjónustu.

„Á sama tíma og verkefni stofnunarinnar hafa aukist svo mjög hafa föst opinber framlög til rekstrar hennar lækkað á föstu verðlagi,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.