Fótbolti

Napoli jók for­ystuna á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Victor Osimhen heldur áfram að skora fyrir Napoli.
Victor Osimhen heldur áfram að skora fyrir Napoli. Giuseppe Maffia/Getty Images

Napoli er komið með 11 stiga forystu á toppi Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Liðið virtist ætla að vinna stórsigur á Udinese í dag en gestirnir rönkuðu við sér undir lokin og gerðu leikinn æsispennandi, lokatölur 3-2.

Napoli hefur verið uppáhaldslið hlutlausra á Ítalíu til þessa á leiktíðinni en liðið hefur spilað frábæran fótbolta, bæði heima fyrir sem og í Meistaradeild Evrópu. Hinn eftirsótti Victo Osimhen kom toppliðinu yfir þegar stundarfjórðungur var liðinn af leik dagsins.

Piotr Zieliński tvöfaldaði svo forystuna þegar rúmur hálftími var liðinn og Napoli virtist svo gott sem vera búið að vinna leikinn er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Eljif Elmas bætti við þriðja markinu á 58. mínútu og virtist aðeins spurning hversu stór sigurinn yrði.

Eitthvað hafa heimamenn slakað á því Ilija Nestorovski minnkaði muninn rúmar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Örskömmu síðar skoraði Lazar Samardžić og staðan allt í einu orðin 3-2. Gestunum tókst þó ekki að fullkomna ótrúlega endurkomu sína og topplið Napoli vann 3-2 sigur.

Napoli er með 41 stig á toppi Serie A að loknum 15 leikjum á meðan Udinese er í 8. sæti með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×