Erlent

Tru­deau sakar Kín­verja um gróf kosninga­af­skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er ósáttur við kínversk stjórnvöld.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er ósáttur við kínversk stjórnvöld. AP/Blair Gable

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sakaði kínversk stjórnvöld um að reyna að hafa áhrif á kosningar í landinu. Ásakanir forsætisráðherrans koma í kjölfar uppljóstrana um að kommúnistastjórnin hafi stutt fjölda frambjóðenda á laun í kosningum árið 2019.

Að minnsta kosti ellefu frambjóðendur í alríkiskosningunum fyrir þremur árum nutu stuðnings Kínverja samkvæmt mati kanadísku leyniþjónustunnar. Þeir hlutu fjárstyrkir frá Beijing og jafnvel ráðgjöf við framboð sín. Ræðisskrifstofa Kína í Ontario er sögð hafa stýrt aðgerðunum, að því er kanadíska fréttastofan Global News sagði frá.

Kínverjar eru einnig sagðir hafa ætlað að reyna að koma útsendurum sínum fyrir að skrifstofum sitjandi þingmanna til að hafa áhrif á stefnu kanadískra stjórnvalda og ná tangarhaldi á embættismönnum. Sendifulltrúa Kína í Kanada hafa ekki brugðist við ásökununum.

Trudeau segir að gripið hafi verið til ráðstafna til þess að styrkja framkvæmd kosninga og að stjórn hans ætlaði að leggja aukinn metnað í að verjast erlendum áhrifaherferðum sem þessari, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Því miður sjáum við lönd, ríki um allan heim, hvort sem það er Kína eða aðrir, sem halda áfram óvægnum leik með stofnanir okkar, með lýðræðið okkar,“ sagði forsætisráðherrann við fréttamenn í gær.

Áður hafði verið greint frá því að kínversk yfirvöld hefði opnað óopinberar „lögreglustöðvar“ í Kanada til að hafa eftirlit með kínverskum andófsmönnum þar. Írsk og hollensk stjórnvöld hafa skipað Kínverjum að loka líka stöðvum þar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×