Innlent

Bólu­efni gegn kommún­isma og enga fram­sóknar­menn takk

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bóluefni gegn kommúnisma var til sölu á landsfundarhófinu á laugardagskvöld. Tuttugu skilti með textanum „Enga Framsóknarmenn“ voru gerð og seldust þau öll.
Bóluefni gegn kommúnisma var til sölu á landsfundarhófinu á laugardagskvöld. Tuttugu skilti með textanum „Enga Framsóknarmenn“ voru gerð og seldust þau öll. Skjáskot

Hlaupskot merkt sem bóluefni gegn kommúnisma og skilti þar sem framsóknarmenn eru beðnir um að yfirgefa svæðið voru meðal þess sem selt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll um helgina. Uppboð ungra sjálfstæðismanna á fundinum sló rækilega í gegn. 

Á landsfundarhófi Sjálfstæðisflokksins á laugardagskvöld var boðið upp á hlaupskot í stórum sprautum. Skotin voru merkt sem bóluefni gegn Communism-22. Þá stóð að algengar aukaverkanir væru timburmenn og kapítalískur þankagangur og í sumum tilvikum væri örvunarskammtur nauðsynlegur.

„Einkenni Communism-22 eru meðal annars forræðishyggja, aukin skoðanatjáning á samfélagsmiðlinum Twitter og ítrekaðar tilraunir til að hafa vit fyrir öðru fólki,“ stóð einnig á sprautunni. 

Skotin voru gífurlega vinsæl um kvöldið, sem og allur varningur sem seldur var á fundinum. Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, var með sölubás þar sem flest allt sló í gegn. 

Sölubás Sambands ungra sjálfstæðismanna sló í gegn.

„Við vorum að vinna með það að fólk gæti keypt allt í jólapakkann. Við vorum með sjálfstæðismerktan gjafapappír og alls konar í pakkann. Pelar, bækur, boli og ýmiskonar varning. Skilti sem stóð á engir framsóknarmenn seldist upp,“ segir Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS, í samtali við fréttastofu. 

Sambandið stóð einnig fyrir uppboði á hátíðarkvöldverði flokksins sem fram fór fyrir hófið. Sambandið hafði síðustu vikur sankað að sér hlutum frá ráðherrum flokksins.

Lísbet Sigurðardóttir.Aðsend

„Það var allt vinsælt. Það seldist allt. Þetta heppnaðist mjög vel og það var mjög vel tekið í þetta,“ segir Lísbet. Meðal þess sem var til sölu voru sokkar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, hækjur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og skriðsundsnámskeið með Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra. 

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að fólk fái það sem það borgaði fyrir. Þórdís Kolbrún er auðvitað gömul sundkempa þannig hún ætti að geta kennt mönnum eitt og annað í skriðsundi,“ segir Lísbet. „Ágóðinn var á aðra milljón. Þetta fer í að efla starfið. Svo við getum boðið upp á viðburði og haldið vel utan um allt fólkið í SUS.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×