Fótbolti

Panathinaikos tapaði stigum eftir tíu sigurleiki í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hörður og félagar höfðu unnið tíu leiki í röð áður en kom að leiknum gegn Olympiacos.
Hörður og félagar höfðu unnið tíu leiki í röð áður en kom að leiknum gegn Olympiacos. Panathinaikos

Hörður Björgvin Magnússon spilaði allan leikinn fyrir Panathinaikos sem gerði jafntefli gegn Olympiacos í grísku deildinni í dag. Panathinaikos jafnaði metin úr vítaspyrnu á þrettándu mínútu uppbótartíma leiksins.

Fyrir leikinn í dag sat Panathinaikos í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga og tíu sigurleiki í röð. Panathinaikos var í þriðja sætinu, tíu stigum á eftir.

Það vantaði ekki dramatíkina í leikinn. Heimamenn í Panathinaikos skoruðu mark í fyrri hálfleik sem var dæmt af en þegar sex mínútur voru eftir af leiknum skoraði Pep Biel fyrir gestina og kom Olympiacos í 1-0.

Það stefndi allt í sigur Olympiacos en á áttundu mínútu uppbótartíma var dæmd vítaspyrna á gestina. Fjórir leikmenn fengu gult spjald í kjölfarið og það var ekki fyrr en á þrettándu mínútu uppbótartíma sem Andraz Sporar gat tekið spyrnuna. Hann jafnaði fyrir heimaliðið, lokatölur 1-1 og Panathinaikos tapaði þar með sínum fyrstu stigum í deildinni.

Hörður Björgvin lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Panathinaikos en hann gekk til liðs við gríska liðið frá CSKA Moskvu í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×