Innlent

For­dæma brott­vísun á ung­menni sem kom sem fylgdar­laust barn

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn brottvísun hælisleitenda á Austurvelli í vikunni.
Frá mótmælum gegn brottvísun hælisleitenda á Austurvelli í vikunni. Vísir/Vilhelm

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fordæmir að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ungmenni sem til landsins sem fylgdarlaust barn rétt eftir að það varð sjálfráða á fimmtudag. Samtökin ítreka áköll sín um að íslensk stjórnvöld hætti að senda hælisleitendur til Grikklands.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar lét smala saman hælisleitendum og senda þá til Grikklands í skjóli nætur í vikunni. Á meðal þeirra sem voru sendir úr landi var fatlaður íraskur karlmaður. Nokkrir í hópnum eiga ennþá mál fyrir íslenskum dómstólum vegna meðferðar á málum þeirra.

Í yfirlýsingu sem Unicef á Íslandi birti á Facebook-síðu sinni í gær fordæma samtökin að ungmenni sem kom hingað sem fylgdarlausu barni hafi verið vísað úr landi. Fylgdarlaus börn eigi rétt á þjónustu barnaverndar og að úrræði hennar séu framlengd þar til ungmenni hefur fengið nægan stuðning til sjálfstæðs lífs.

„Móttaka fylgdarlausra barna hér á landi er bágborin en þarna tekur steininn úr,“ segir í yfirlýsingu barnahjálparinnar.

Ítreka samtökin fyrri áköll sín til íslenskra stjórnvalda um að hætta tafarlaust að senda hælisleitendur og flóttafólk til Grikklands þar sem margítrekað hafi komið fram að aðstæður þess séu ómannúðlegar og án fordæma í Evrópu.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa að mestu vísað gagnrýni á brottvísanirnar á bug í vikunni og fullyrt að almenn ánægja ríki um útlendingalögin sem þær byggja á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×