Innlent

Fundu ekki þrettán sem átti að senda úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í gærkvöldi.
Frá aðgerðum lögreglu í gærkvöldi. Aðsend

Fimmtán hælisleitendur voru fluttir úr landi í morgun af stoðdeild ríkislögreglustjóra. Til stóð að senda 28 manns sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi til Grikklands en þrettán þeirra fundust ekki þegar lögregluþjónar leituðu þeirra í nótt.

Í yfirlýsingu frá ríkislögreglustjóra segir að fólkið sem sent var úr landi hafi verið umsækjendur um alþjóðlega vernd og að þau hafi fengið endanlega stöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun og þeim hafi verið gert að yfirgefa landið.

Í umræddum hóp fólks er fimm manna fjölskylda frá Írak sem hefur verið hér á landi í rúm tvö ár.

Sjá einnig: Hand­­tekin og vísað úr landi án nokkurs fyrir­­vara þrátt fyrir veikindi

Þar segir einnig að fólkinu hafi verið gefinn kostur á að yfirgefa landið sjálft og án lögreglufylgdar, áður en þeim hafi svo verið fylgt úr landi. Unnið hefur verið að ferðinni í rúman mánuð.

„Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa fengið endanlega niðurstöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun er þeim gert ljóst um að þeim verði gert að yfirgefa landið og fara á verkbeiðnalista stoðdeildar. Einstaklingar eru ekki fjarlægðir af þeim verkbeiðnalista nema af beiðni Útlendingastofnunar,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir einnig að sé hælisleitandi metinn ósamvinnuþýður eða hættulegur hafi lögreglna valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi hælisleitenda og almennings. Þeim valdheimildum sé þó ekki beitt nema nauðsynlegt sé.

Þá segir í yfirlýsingunni að einn fatlaður einstaklingur hafi verið í hópnu, Hussein Hussein frá Írak, og sá hafi notast við hjólastól og að stóllinn hafi fylgt honum á áfangastað. Engin börn hafi verið í hópnum og sem standi séu engin börn á áðurnefndum verkbeiðnalista stoðdeildarinnar á leið til Grikklands.

Ríkislögreglustjóri ætlar ekki að veita nánari upplýsingar um málið, samkvæmt yfirlýsingunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×