Fótbolti

Hákon Arnar mánuði frá því að ná metinu af Arnóri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson sést hér á ferðinni með boltann í gær umrkringdur varnarmönnum Borussia Dortmund.
Hákon Arnar Haraldsson sést hér á ferðinni með boltann í gær umrkringdur varnarmönnum Borussia Dortmund. Getty/Sergei Gapon

Hákon Arnar Haraldsson varð í gærkvöldi fyrsti Íslendingurinn í þrjú ár og tíu mánuði til að skora í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Hákon Arnar, sem í gær var 19 ára, sex mánaða og 23 daga gamall er fjórði Íslendingurinn sem nær að skora í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en hann er ekki sá yngsti þrátt fyrir ungan aldur.

Yngsti íslenski markaskorari Íslands í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er áfram Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson sem var nákvæmlega einum mánuði yngri en Hákon þegar hann skoraði fyrir CSKA Moskvu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 7. nóvember 2018.

Í gær vour liðnir 1421 dagar síðan íslenskt mark leit dagsins ljós í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en það skoraði Arnór Sigurðsson fyrir CSKA Moskvu á móti Real Madrid á sjálfum Santiago Bernabéu.

Arnór lagði líka upp mark fyrir liðsfélaga sinn Fedor Chalov í þessum eftirminnilega leik hans í Madrid.

Eiður Smári Guðjohnsen var fyrsti Íslendingurinn til að skora í Meistaradeildinni þegar hann skoraði fyrir Chelsea á móti Lazio í október 2003. Eiður Smári er líka markahæsti Íslendingurinn í Meistaradeildinni með sjö mörk.

Alfreð Finnbogason bættist í hópinn með marki á móti Arsenal í lok september 2015 og Arnór skoraði síðan bæði mörkin sín árið 2018.

  • Yngsti markaskorari Íslands í Meistaradeildinni:
  • 19 ára, 5 mánaða og 23 daga
  • Arnór Sigurðsson fyrir CSKA Moskvu á móti AS Roma 7. nóvember 2018
  • 19 ára, 6 mánaða og 23 daga
  • Hákon Arnar Haraldsson fyrir FCK á móti Dortmund 2. nóvember 2022
  • 25 ára, 1 mánaða og 7 daga
  • Eiður Smári Guðjohnsen fyrir Chelsea á móti Lazio 22. október 2003
  • 26 ára, 7 mánaða og 28 daga
  • Alfreð Finnbogason fyrir Olympiacos á móti Arsenal 29. september 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×