Innlent

„Trúverðuleiki embættisins með hana í stafni er enginn“

Ólafur Björn Sverrisson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er harðorður í garð lögreglu og telur trúverðugleika embættis ríkislögreglustjóra engan á meðan Sigríður Björk gegnir því embætti. Byssusmiður segir föður hennar standa að ólöglegri byssueign- og sölu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er harðorður í garð lögreglu og telur trúverðugleika embættis ríkislögreglustjóra engan á meðan Sigríður Björk gegnir því embætti. Byssusmiður segir föður hennar standa að ólöglegri byssueign- og sölu. vísir/samsett

Hæstaréttarlögmaður gagnrýnir harðlega vinnubrögð lögreglu og ákæruvalds í tengslum við meint vopnalagabrot föður ríkislögreglustjóra. Hann telur að Sigríður Björk Guðjónsdóttir hljóti að íhuga stöðu sína vegna málsins. 

Byssusmiðurinn Agnar Guðjónsson hefur lýst undrun sinni á því að enginn innan lögreglu hafi viljað snerta á máli þar sem grunur var um að Guðjón Valdimarsson hafi selt ólöglega og hálfsjálfvirka riffla í stórum stíl á netinu. Fjallað var um meint brot Guðjóns, föður ríkislögreglustjóra, fyrst í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV. 

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður var harðorður í garð lögreglu í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Viðtalið við hann hefst þegar um 3 mínútur eru liðnar af fréttinni:

„Samkvæmt lögum um meðferð sakamála á lögregla, þegar hún fær vitneskju um refsiverða háttsemi, þegar í stað að hefja rannsókn á þeirri meintu refsiverðu háttsemi. Það er augljóst af þessum dómi Landsréttar og héraðsdómi að upplýsingar um meinta refsiverða háttsemi föður ríkislögreglustjóra komu fram við skýrslutökur af manninum 10. júli 2018,“ segir Vilhjálmur. 

Þá þegar hafi því átt að hefja rannsókn á þeim þætti málsins. 

„Það væri maður sem héldi úti vopnasölusíðu, sem héti vopnasali.net, sem væri að selja hríðskotabyssur á Íslandi. Það hefur hins vegar ekki verið gert.“

„Heldur er ekki að sjá að athygli annarra stofnana, svo sem ríkissaksóknara, héraðssaksóknara eða ríkislögreglustjóra hafi verið vakin á þessu meinta hegningalagabroti.“

Vilhjálmur var þá spurður út í þýðingu málsins fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra.

„Ég tel að þetta hafi auðvitað mikla þýðingu fyrir hana og ríkislögreglustjóri hlýtur að liggja undir feldi núna og íhuga stöðu sína,“ segir Vilhjálmur og bætir við að trúverðugleiki embættis ríkislögreglustjóra sé enginn með hana í stafni.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.Stöð 2/Einar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×