Innlent

Stefna um fjölgun leik­­skóla­­plássa og fækkun starfs­manna sýni metnaðar­­leysi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Frá mótmælum vegna skorts á leikskólaplássum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hildur Björnsdóttir (t.h.) oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Frá mótmælum vegna skorts á leikskólaplássum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hildur Björnsdóttir (t.h.) oddviti Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn vakti í dag athygli á því að samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár, 2023 væri aðeins reiknað með að leikskólaplássum í Reykjavík fjölgi um 109. Einnig sé stefnt að því að fækka leikskólastarfsmönnum.

Um nokkurt skeið hefur mikil ólga ríkt meðal foreldra í Reykjavík en mörg hundruð börn hafa ekki fengið leikskólapláss. Efnt hefur verið til endurtekinna mótmæla vegna þessa en þann 13. september síðastliðinn biðu 552 börn eftir leikskólaplássi.

Fjöldi barna á biðlista virðist aðeins hafa hækkað en greint var frá því þann 21. október að 618 börn, tólf mánaða og eldri biðu eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Nærri hundrað pláss væru ónýt vegna myglu og ekki hefði tekist að manna leikskólana til þess að hægt væri að bjóða upp á fleiri pláss.

Við umræður um fjárhagsáætlun og fjármálastefnu Reykjavíkurborgar í dag, sem sögð er gera ráð fyrir 109 leikskólaplássum á nýju ári og töluverðri fækkun leikskólastarfsmanna sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins stefnuna sýna mikið metnaðarleysi.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. 

„Við verðum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, það er eitt stærsta jafnréttismál sem við fáumst við í borginni. Þau áform sem birtast í fjárhagsáætlun sýna algjört metnaðarleysi fyrir viðfangsefninu“, sagði Hildur í ræðu sinni.

Hún sagði þessi áform skjóta skökku við en borgin hafi þegar lofað að rými fyrir öll börn frá tólf mánaða aldri yrðu tryggð. Biðlistar séu ekki styttir með því að fækka starfsfólki leikskóla.

Hún gagnrýndi einnig að gert hafi verið ráð fyrir starfsmannafjölgun innan miðlægrar stjórnsýslu sem hýsi meðal annars skrifstofu borgarstjóra. Á sama tíma sé gert ráð fyrir að fækka eigi leikskólastarfsmönnum um 75. 

„Það virðist ekki hægt að fjölga leikskólastarfsmönnum, en alltaf má fjölga starfsfólki í miðlægri stjórnsýslu. Áætlað er að þeim fjölgi um 13% á næsta ári“, sagði Hildur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×