Fótbolti

Sektað vegna ráðningar Rooney

Sindri Sverrisson skrifar
Wayne Rooney var ráðinn án þess að tveir kandídatar úr minnihlutahópum kæmu af alvöru til greina í þjálfarastarfið hjá D.C. United.
Wayne Rooney var ráðinn án þess að tveir kandídatar úr minnihlutahópum kæmu af alvöru til greina í þjálfarastarfið hjá D.C. United. Getty/Rich von Biberstein

Bandaríska knattspyrnufélaginu D.C. United hefur verið refsað í tengslum við ráðninguna á Wayne Rooney sem aðalþjálfara liðsins.

Félagið var sektað um 25.000 Bandaríkjadali, jafnvirði um 3,6 milljóna króna, fyrir að hafa ekki fylgt reglum deildarinnar varðandi fjölbreytileika þeirra kandídata sem rætt var við um að taka við starfinu.

Rooney tók við af Hernan Losada í júlí eftir að hafa hætt sem knattspyrnustjóri Derby County nokkrum vikum áður.

Í reglum MLS-deildarinnar segir að félög verði að tryggja að í lokahópi þeirra sem komi til greina í þjálfarastarf séu að minnsta kosti tveir sem tilheyri minnihlutahópum, og í það minnsta einn sé svartur eða af afrísk-amerískum uppruna.

D.C. United var sektað þar sem að í ljós kom að þó að rætt hefði verið við tvo menn sem tilheyrðu minnihlutahópum þá gæti annar þeirra ekki talist til þeirra sem voru í lokahópi þeirra sem komu til greina, þar sem að í viðtali við hann hefði komið fram að hann gæti ekki tekið að sér starfið.

Í yfirlýsingu frá MLS segir að þar af leiðandi hafi félaginu borið skylda til að finna annan kandídat eða fara fram á undanþágu. Það var ekki gert.

D.C. United hefur ekki vegnað vel undir stjórn Rooney en liðið endaði neðst í austurdeild MLS-deildarinnar með aðeins sjö sigra í 34 leikjum. Félagið samþykkti sektina sem það hlaut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×