Innlent

Sér eftir að hafa klínt sniglinum á Spán

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ekki skal tala um spánarsnigil heldur vargsnigil héðan í frá.
Ekki skal tala um spánarsnigil heldur vargsnigil héðan í frá. Vísir/Getty

Erling Ólafsson skordýrafræðingur segist ósáttur með sjálfan sig fyrir að hafa tengt Spán við tegund snigla sem eru Spáni óviðkomandi. Spánarsnigilinn skal nú kalla vargsnigil. 

Erling ræðir þessa nafngift sína á Facebook-síðunni Heimur smádýranna. Hann segir að tengsl snigilsins við Spán og Íberíuskaga hafi orðið til vegna misskilnings sem leiðréttur var fyrir alllöngu. 

„Gekk hann undir fræðiheitinu Arion lusitanicus og var kenndur við Íberíuskaga. Fékk snigillinn alþýðuheiti á ýmsum þjóðtungum í samræmi við meintan uppruna, sbr. Spanish slug og spansk skogssnigel. Síðar komu mistök í ljós. Tegundin reyndist önnur en fyrst var talið og var þá fræðiheiti réttrar tegundar tekið upp, Arion vulgaris (vulgaris merkir hinn algengi),“ skrifar Erling. 

Hann segir snigilinn jú finnast á Spáni, en einnig víðar um Suður-Evrópu. Því sé ósanngjarnt að kenna „alræmda kvikindið“ eingöngu við Spán.

Þegar Erling frétti af misskilningnum varð hann afar ósáttur með að hafa á sínum tíma hermt eftir nágrannaþjóðum og kennt snigilinn við Spán. Þá fór hann að huga að nýju heiti en það að úrelta heitið hafi fest sig í sessi í málinu aftraði hann frá því að viðra tillöguna. 

„Læt ég nú slag standa, framvegis mun ég nota heitið vargsnigill í umfjöllunum mínum. Hvernig því verður tekið er undir hverjum og einum komið. Vargsnigill þykir mér hæfa lífsháttunum,“ skrifar Erling. 

Vargsnigillinn, áður spánarsnigillinn, er alæta sem étur nánast allt sem verður á vegi hans, svo sem plöntur, hundaskít og aðra snigla. Vargsnigillinn skemmir gróður og sóðar út með slímslóð sinni en útrýmir einnig öðrum sniglum þar sem hann nær fótfestu. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur gengið svo langt að kalla vargsnigilinn óboðinn gráðugan gest. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×