Lífið

Vinkona Önnu Frank er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Hannah Pick-Goslar fluttist til Ísraels árið 1947 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur.
Hannah Pick-Goslar fluttist til Ísraels árið 1947 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur. Anne Frank House

Hin þýska Hannah Pick-Goslar, sem var ein af bestu vinkonum Önnu Frank, er látin, 93 ára að aldri.

Safnið Anne Frank House í Amsterdam greinir frá andlátinu og segir að hún hafi andast um liðna helgi,

„Hannah Pick-Goslar hafði mikla þyðingu fyrir Anne Frank House. Við gátum ætíð hringt í hana,“ segir í yfirlýsingu safnsins að sögn ABC News.

Pick Goslar var vinkona gyðingsins og táningsstúlkunnar Anne Frank sem lést í útrýmingarbúðum nasista þegar hún var sextán ára gömul. Hún kom við sögu í bókinni Dagbók Önnu Frank, undir nafninu Hanneli.

Þær Anna og Hannah kynntust þegar þær urðu nágrannar í Amsterdam eftir að fjölskyldur þeirra flúðu frá Þýskalandi til Hollands. Flúðu þau eftir að Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi og gyðingar sættu ofsóknum.

Anne Frank House segir að Pick Goslar hafi átt ríkan þátt í að halda minningu Önnu Frank á lofti, en hún skrifaði meðal annars bók til heiðurs vinkonu sinni, Memories of Anne Frank; Reflections of a Childhood Friend.

Anne Frank var og fjölskylda hennar földu sig frá nasistum í leyniherbergi í Amsterdam frá 1942 til 1944 þegar upp komst um þau. Voru þau handtekin af fulltrúum leynilögreglu nasista og flutt í útrýmingarbúðir.

Í frétt ABC segir að Hannah Pick-Goslar hafi síðast séð Önnu Frank í febrúar 1945. Anne Frank og systir hennar Margot létust að öllum líkindum af völdum taugaveiki í útrýmingarbúðunum Bergen-Belsen mánuði síðar.

Pick-Goslar fluttist til Ísraels árið 1947 og starfaði síðar sem hjúkrunarfræðingur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.