Innlent

Sakaður um trygginga­svik en hafði betur og fær bætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í málinu.
Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í málinu. Vísir/Vilhelm

Ökumaður sem tryggingafélagið Vörður sakaði um tryggingasvindl, án árangurs, á rétt á greiðslu bóta úr slysatryggingu sem maðurinn var með hjá félaginu. Ökumaðurinn hafði betur gegn tryggingafélaginu í Landsrétti og í héraðsdómi.

 Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu síðastliðinn föstudag.

Málið má rekja til þess að árið 2017 keypti ökumaðrinn bíl á tuttugu þúsund krónur. Bíllinn var tryggður hjá Verði. Nokkrum dögum síðar lenti ökumaðurinn í óhappi á Krýsuvíkurvegi. Slasaðist ökumaðurinn er bíllinn valt af veginum. Bíllinn reyndist ónýtur.

Vegna slyssins reyndi maðurinn að sækja bætur úr slysatryggingunni en án árangurs. Í fyrstu samþykkti Vörður að greiða bætur en þegar lögmaður mannsins sendi kröfu til tryggingafélagsins hafði afstaða félagsins breyst.

Vörður kærði ökumanninn fyrir tilraun til tryggingasvindls vegna slyssins. Taldi félagið ósannað að ökumaðurinn hafi slasast í umræddu slysi.

Engin vitni hafi verið að slysinu, engin lögregluskýrsla eða önnur gögn liggi fyrir um aðstæður á vettvangi auk þess sem að bifreiðinni hafi verið fargað.

Lögreglan lét málið niður falla

Lögreglan rannsakaði málið vegna kæru tryggingafélagsins. Lögregla lét málið hins vegar niður falla þar sem að það sem fram hefði komið við rannsókn þess þætti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellingar.

Héraðsdómur taldi að Vörður hafi ekki tekist að sýna fram á réttmæti þess að hafna bótakröfunni.

Í niðurstöðu Landsréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, kemur fram að tryggingafélaginu hafi ekki tekist að sýna fram á að lýsing ökumannsins á slysinu og afleiðingum þess hafi verið röng.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.