Fótbolti

Skoraði aukaspyrnutvennu fyrir Ísland: Sjáðu flott mörk hjá strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru margir spennandi strákar að koma upp í sautján ára landsliðinu.
Það eru margir spennandi strákar að koma upp í sautján ára landsliðinu. Knattspyrnusamband Íslands

Íslenska sautján ára landsliðið í fótbolta er komið áfram í milliriðla í undankeppni Evrópumótsins þrátt fyrir að liðið eigi einn leik eftir í sínum riðli.

Íslensku strákarnir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína og skorað í þeim sex mörk. Lokaleikur liðsins er á móti Frakklandi í dag en skiptir ekki máli því bæði liðin eru komin áfram.

Strákarnir skoruðu þrjú geggjuð mörk í 3-1 sigri á Lúxemborg í síðasta leik þar sem Þorri Stefán Þorbjörnsson skoraði tvö mörk og fyrirliðinn Daníel Tristan Guðjohnsen var með eitt.

Daníel Tristan skoraði tvö mörk í 3-0 sigri á Norður-Makedónía í fyrsta leik en þar var Kjartan Már Kjartansson með þriðja markið.

Þorri Stefán, sem er leikmaður FH, skoraði bæði mörkin sín á móti Lúxemborg með glæsilegum skotum beint úr aukaspyrnu.

Daníel Tristan fiskaði báðar aukaspyrnurnar en hann hafði áður komið íslenska liðinu í 1-0 með laglegu marki þar sem hann lyfti boltanum skemmtilega yfir markvörð Lúxemborgar. Karl Ágúst Karlsson átti þá laglega sendingu inn fyrir vörnina á Daníel en Karl er leikmaður HK.

Daníel Tristan, sem hefur nú skorað fimm mörk fyrir íslenska sautján ára landsliðið er leikmaður Malmö FF í Svíþjóð. Hann hefur í þessum tveimur leikjum skorað þrjú mörk, gefið eina stoðsendingu og fiskað tvær aukaspyrnur sem hafa gefið mark.

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú sett inn myndband með öllum þessum mörkum en hér fyrir neðan má sjá mörkin á móti Lúxemborg og enn neðar eru mörkin á móti Norður-Makedóníu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.