Fótbolti

Íslendingalið Kristianstad fékk skell og stimplaði sig út úr toppbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elísabet í leik hjá Kristianstad.
Elísabet í leik hjá Kristianstad. Twitter@@_OBOSDamallsv

Íslendingalið Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, mátti þola 4-1 tap er liðið heimsótti Linköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Kristianstad er nú 11 stigum á eftir toppliði Rosengård þegar liðið á aðeins þrjá leiki eftir.

Linköping og Kristianstad sátu í þriðja og fjórða sæti deildarinnar fyrir leik dagsins og ljóst var að bæði lið þurftu á sigri að halda til að halda sér í toppbaráttunni.

Heimakonur í Linköping tóku forystuna um miðjan fyrri hálfleik og bættu svo öðru marki við eftir um hálftíma leik og staðan var því 2-0 þegar liðin gegnu til búningsherbergja.

Heimakonur bættu tveimur mörkum við snemma í síðari hálfleik áður en Evelyne Viens klóraði í bakkann fyrir Kristianstad stuttu fyrir leikslok og niðurstaðan því öruggur 4-1 sigur Linköping.

Amanda Andradóttir var í byrjunarliði Kristianstad í dag, en hún var tekin af velli á 68. mínútu fyrir Emelíu Óskarsdóttur.

Kristianstad situr enn í fjórða sæti deildarinnar með 49 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir, 11 stigum á eftir toppliði Rosengård sem á leik til góða. Linköping lyfti sér hins vegar upp í annað sæti deildarinnar og er liðið nú aðeins fjórum stigum á eftir Rosengård, en líkt og Kristianstad hefur liðið leikið einum leik meira en toppliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×