Fótbolti

Marka­súpa í Austur­ríki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manuela Giugliano fagnar einu af mörkum sínum í kvöld.
Manuela Giugliano fagnar einu af mörkum sínum í kvöld. Luciano Rossi/Getty Images

Tveimur af fjórum leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu kvenna í fótbolta er nú lokið. Real Madríd og París Saint-Germain gerðu markalaust jafntefli á Spáni á meðan Roma lagði St. Polten 4-3 í Austurríki.

Boðið var upp á mikla skemmtun í Austurríki í kvöld. Jasmin Eder kom St. Polter yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og Rita Schumacher tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks.

Manuela Giugliano minnkaði muninn fyrir Roma á 75. mínútu og segja má að þá hafi lætin hafist. Gestirnir fengu vítaspyrnu skömmu síðar sem fór forgörðum en Valentina Giacinti jafnaði metin úr frákastinu. 

Skömmu síðar kom Giugliano gestunum yfir og Paloma Lazaro Torres del Molino skoraði fjórða mark gestanna á 87. mínútu. Maria Mikolajova minnkaði muninn í 4-3 fyrir heimaliðið í uppbótartíma en nær komst St. Polten ekki og lokatölur 4-3 Roma í vil.

Rómverjar eru á toppi B-riðils með sex stig en Sveindís Jane Jónsdóttir og Wolfsburg geta náð toppsætinu á nýjan leik með sigri síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×