Innlent

Hætt verði að flagga í hálfa við ráð­húsið við and­lát og út­för íbúa

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðhús Fjallabyggðar á Siglufirði er að finna á miðri myndinni.
Ráðhús Fjallabyggðar á Siglufirði er að finna á miðri myndinni. Vísir/Egill

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt tillögur um að hætt verði að flagga íslenska fánanum við ráðhús sveitarfélagsins við andlát og útför íbúa sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Fjallabyggðar sem hefur vísað tillögunum til afgreiðslu og umræðu í bæjarstjórn.

S. Guðrún Hauksdóttir, varaformaður bæjarráðs, segir tillögurnar til komnar til að samræma hefðir innan sveitarfélagsins eftir sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Siglufjarðarmegin hafi verið hefð fyrir því að flagga við andlát.

Guðrún segir flækjur þó geta myndast og varðandi hvenær skuli flaggað og hvenær ekki. „Hugmyndin snýst um að einfalda hlutina og að sýna öllum sömu virðingu. Upp hafa komið tilvik þar sem vitneskja um andlát er ekki fyrir hendi, en svo þarf líka að endurskoða mál í takt við breytingar í samfélaginu.“

Hún segir að flöggun íslenska fánans við bæjarskrifstofurnar, sér í lagi um helgar, hafi í sumum tilvikum skapað vandræði fyrir starfsmenn sveitarfélagsins.

Það var deildarstjóri stjórnsýslu Fjallabyggðar sem lagði fram tillöguna og miðar hún við að flöggun sem þessi verði hætt í byrjun næsta árs. „Frá og með þeim tíma verður íslenska fánanum flaggað við stofnanir Fjallabyggðar á opinberum fánadögum,“ segir í bókun bæjarráðs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×