Fótbolti

Þessi eða hinn? Del Piero eða Totti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alessandro Del Piero og Francesco Totti voru gulldrengirnir í ítalska boltanum í kringum aldamótin.
Alessandro Del Piero og Francesco Totti voru gulldrengirnir í ítalska boltanum í kringum aldamótin. getty/Valerio Pennicino

Þeir Baldur Sigurðsson og Atli Viðar Björnsson voru beðnir að velja á milli Alessandros Del Piero og Francescos Totti í dagskrárliðnum Þessi eða hinn sem er alltaf í lok hvers þáttar af Meistaradeildarmörkunum.

Baldur og Atli Viðar voru sérfræðingar þáttarins í gær og Kjartan Atli Kjartansson úthlutaði þeim því erfiða verkefni að velja á milli eins félags ítölsku goðsagnanna Del Pieros og Tottis. Del Piero er leikja- og markahæstur í sögu Juventus og Totti leikja- og markahæstur í sögu Roma.

„Þessar fyrstu minningar, þegar fótboltinn hafði svo mikil áhrif á mann, þá man ég meira eftir Del Piero. Aukaspyrnurnar, sendingarnar, mörkin og hæfileikarnir sem hann bjó yfir. Ef ég þyrfti að velja einn í liðið mitt myndi ég taka Del Piero,“ sagði Baldur. Atli Viðar var á öndverðu meiði.

Klippa: Þessi eða hinn - Del Piero eða Totti

„Ég var alltaf rosalega hrifinn af Totti. Roma-liðið stóð og féll með honum á meðan Del Piero hafði fleiri til að deila athyglinni með. Ég ætla að vera ósammála Baldri og Totti færi í mitt lið sem tía. Það var alltaf verið að banka í Totti að koma í Real Madrid eða þessi stærstu lið en hann var trúr og tryggur.“

Þennan eða hinn má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×