Fótbolti

Spænskur stuðnings­maður horfinn: Ætlaði að labba frá Spáni og á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Santiago Sanchez birti þessa mynd af sér frá ferðalaginu. Hann er þessi í bláu peysunni í miðjunni.
Santiago Sanchez birti þessa mynd af sér frá ferðalaginu. Hann er þessi í bláu peysunni í miðjunni. Instagram/@santiago_sanchez_cogedor

Fjölskylda spænsk fótboltaáhugamanns óttast um líf hans því ekkert hefur heyrst frá honum í margar vikur.

Santiago Sanchez setti sér það mjög svo krefjandi markmið að ganga frá Madrid á Spáni til Doha í Katar þar sem heimsmeistarakeppnin verður sett í næsta mánuði.

Ættingjar mannsins sögðu frá því að þau höfðu ekkert heyrt í sínum manni í þrjár vikur eða síðan að hann fór yfir landamærin til Íran.

Sanchez er reyndur göngumaður, fyrrum fallhlífahermaður og mikill fótboltaáhugamaður.

Hann var búinn að ganga í gegnum fimmtán lönd áður en hann kom til Írans.

Sanchez er 41 árs gamall og sagði að markmið sitt með þessu ferðalagi sínu væri að komast að því hvernig fólki býr og lifir í öðrum löndum.

Hann ætlaði að ná fyrsta leik spænska landsliðsins á HM sem er á móti Kosta Ríka 23. nóvember næstkomandi.

Sanchez hefur leyft fólki að fylgjast með ferðalagi sínu á Instagram.

„Við höfum miklar áhyggjur og ég og eiginmaðurinn minn getum ekki hætt að gráta,“ sagði Celia Cogedor, móðir Santiago í viðtali við The Associated Press.

Síðast heyrðist frá Sanchez þegar hann sendi hljóðskilaboð 2. október síðastliðinn daginn eftir að hann fór yfir landamærin. Hann ætlaði að fara til Tehran, höfuðborgar Írans. Þaðan ætlaði hann suður til hafnarborgarinnar Bandar Abbas og sigla síðan þaðan til Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×