Innlent

Kristrún ein í framboði til formanns

Kjartan Kjartansson skrifar
Kristrún Frostadóttir verður formaður Samfylkingarinnar eftir landsfund í næstu viku.
Kristrún Frostadóttir verður formaður Samfylkingarinnar eftir landsfund í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Frestur til að skila inn framboði til formanns Samfylkingarinnar rann út í hádeginu og er nú ljóst að Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði. Kosning formanns fer fram á landsfundi flokksins eftir viku.

Þrátt fyrir að Kristrún sé ein í framboði fer formannskjör fram á landsfundinum samkvæmt reglum Samfylkingarinnar, að því er segir í tilkynningu á vefsíðu flokksins.

Kristrún var oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í þingkosningunum sem fóru fram í fyrra og tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti að þeim loknum. Hún lýsti yfir framboði sínu til formanns í ágúst.

Tekur hún við af Loga Einarssyni sem hefur gegnt embætti formanns frá því að Oddný Harðardóttir sagði af sér eftir afhroð sem Samfylkingin galt í Alþingiskosningum árið 2016. Flokkurinn náði þá aðeins þremur mönnum inn á þing.

Formannskjörið fer fram á landsfundinum föstudaginn 28. október. Búist er við því að kjör formanns verði lýst upp úr klukkan hálf sjö þann dag.

Frestur til að skila inn framboðum til annarra embætta rennur út á landsfundinum. Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði, hefur tilkynnt um framboð til varaformanns. Alexandra Ýr van Erven sækist eftir endurkjöri sem ritari en Anna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðar, býður sig fram gegn henni.

Þá sækist Kjartan Valgarðsson eftir því að halda áfram sem formaður framkvæmdastjórnar flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×