Erlent

Spacey sýknaður af því að hafa misnotað leikara

Kjartan Kjartansson skrifar
Kevin Spacey (f.m.) yfirgefur dómshús í New York eftir að dómur var kveðinn upp í gær.
Kevin Spacey (f.m.) yfirgefur dómshús í New York eftir að dómur var kveðinn upp í gær. AP/Andres Kudacki

Kviðdómur í New York sýknaði Kevin Spacey af ásökunum um að hann hefði reynt að nauðga leikaranum Anthony Rapp þegar sá síðarnefndi var táningur á tíunda áratug síðustu aldar. Lögmaður Rapp sakaði Spacey um að ljúga fyrir dómi.

Rapp fullyrðir að Spacey hafi reynt að misnota sig kynferðislega eftir samkvæmi þegar hann var sjálfur fjórtán ára en Spacey var 26 ára árið 1986. Hvorugur þeirra var þekktur leikari á þeim tíma. Rapp krafðist fjörutíu milljóna dollara, jafnvirði meira en 5,8 milljarða íslenskra króna, í miskabætur í einkamálinu sem hann höfðaði gegn Spacey.

Það tók kviðdóm aðeins klukkustund að komast að þeirri niðurstöðu að lögmenn Rapp hefðu ekki fært nægjanlegar sönnur fyrir ásökununum og sýkna Spacey, að sögn AP-fréttastofunnar.

Hvorki Spacey né Rapp tjáðu sig beint við fjölmiðla eftir að dómur féll. Lögmenn Spacey fögnuðu því að kviðdómurinn hefði séð í gegnum „falskar ásakanir“ á hendur honum en lögmaður Rapp fullyrti í lokamálflutningsræðu sinni að Spacey hefði borið ljúgvitni.

Í vitnastúku sagði Spacey kviðdómendum að atvikið hefði aldrei átt sér stað og að hann hefði aldrei laðast að manneskju sem væri fjórtán ára gömul.

Fjöldi annarra karlmanni stigu fram og sökuðu Spacey um áreitni og ofbeldi eftir að Rapp sagði frá sinni reynslu. Dómsmál gegn Spacey vegna ásakana um að hann hafi brotið á þremur karlmönnum stendur nú yfir í London í Bretlandi.

Þá staðfesti dómari í Los Angeles nýlega úrskurð gerðardómara að Spacey þyrfti að greiða framleiðendum þáttaraðarinnar „Spilaborgar“ meira en þrjátíu milljónir dollara, jafnvirði um 4,5 milljarða íslenskra króna. Leikarinn var talinn hafa brotið samning sinn með því að áreita starfsfólk kynferðislega.


Tengdar fréttir

Spacey segist saklaus

Kevin Spacey, hinn víðfrægi bandaríski leikari, lýsti yfir sakleysi sínu í dómssal í Lundúnum í morgun en hann hefur verið ásakaður um að brjóta kynferðislega gegn þremur mönnum fyrir áratug og rúmlega það. Spacey, sem er 62 ára gamall, sagðist saklaus af öllum fimm ákæruliðunum gegn sér.

Spacey laus gegn tryggingu

Breskur dómstóll féllst á að Kevin Spacey fengi að vera laus gegn tryggingu þegar mál hans var tekið fyrir í dag. Bandaríski leikarinnar er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur karlmönnum í Bretlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×