Innlent

„Skarpan kraft“ þurfti til að veita stungusárin

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi á Ólafsfirði.
Frá vettvangi á Ólafsfirði. Vísir/Tryggvi Páll

Frekari rannsóknir þarf til að sýna fram á hvort maðurinn sem banaði öðrum á Ólafsfirði í byrjun mánaðarins gerði það í sjálfsvörn eða ekki. Hinn látni er talinn hafa átt upptökin og mætt með hnîf á vettvang.

Maðurinn sem var handtekinn var nýverið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og þá að mestu á þeim grundvelli að hann er á reynslulausn og er grunaður um fjölda alvarlegra brota á undanförnum mánuðum.

Landsréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra gegn manninum. Hann var þann 10. október síðastliðinn úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald eða til 7. nóvember.

Í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem birtur var með úrskurði Landsréttar, kemur fram að maðurinn sem er í gæsluvarðhaldi segir hinn látna hafa veist að sér með hnífi og sært sig í andliti og læri. Við átök þeirra fékk hinn látni einnig stungusár og meðal annars tvö sár á vinstri síðu, sem talin eru hafa dregið hann til dauða.

Í læknisvottorði segir að útlit sáranna bendi sterklega til þess að „skarpan kraft“ hafi þurft til að veita þau með hnífi.

Í niðurstöðum úrskurðarins segir að á þessu stigi málsins verði engu slegið föstu um það hvort hinn látni hafi hlotið stungusárin af slysni í átökunum eða hvort refsileysisástæður kunni að eiga við. Frekari tæknilegar rannsóknir þurfi að fara fram til að varpa skýrara ljósi á atburðarásina.

Hins vegar er maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna endurtekinna og alvarlega brota.

Grunaður um alvarleg brot

Maðurinn sem er í gæsluvarðhaldi var sleppt úr fangelsi á reynslulausn þann 15. mars síðastliðinn. Síðan þá er hann sagður hafa komið sex sinnum við sögu lögreglu út af nokkurskonar meintum brotum. Þar á meðal er innflutningur fíkniefna, eignaspjöll, þjófnaður, húsbrot, rán, frelsissvipting og líkamsárás.

Sjá einnig: Eigin­kona hins látna grunuð um að hafa stungið hann með hnífi í mars

Verjandi mannsins hefur gefið þær skýringar að hann hafi verið að verjast árás hins látna og að hnífurinn hljóti að hafa hafnað í honum í átökunum. Mögulega þegar maðurinn hrinti hinum látna eða reyndi að bera höndina fyrir sig þegar hinn látni stakk hann í andlitið.

Verjandinn segir einnig að áverkar á hinum látna komi ekki heim og saman við það að maðurinn hafi haldið á hnífnum. Hann sé örvhentur og myndi því ekki stinga þann látna í vinstri síðuna.

„Áverkarnir samræmist hins vegar því að hann hafi ýtt hendi hins látna frá sér með vinstri hendi, sér til varnar, eftir að hafa hlotið stungu í lærið og þá hafi hægri hönd hins látna snúist með hnífinn í átt að vinstri síðu hins látna og hann hlotið stungu við það,“ er haft eftir verjandanum í úrskurðinum.

Skýringar sagðar ófullnægjandi

Í málsatvika hluta úrskurðarins segir það ekki fullnægjandi skýringar á því hvernig hinn látni hafi særst svo alvarlega eins og hann gerði. Kona sem var í íbúðinni styður þann framburð að hinn látni hafi byrjað átökin en í úrskurðinum segir að rannsóknargögn bendi til þess að maðurinn sem er í gæsluvarðhaldi hafi á einhverjum tímapunkti náð yfirhöndum í átökunum og stjórn á hnífnum.

Í kjölfarið hafi hann stungið hinn látna tvisvar svo hann lést.

„Saga X [mannsins] um að hann hafi náð hnífnum af A [hinum látna] með því að ná hendi hans undir hægri hendi sína og þá hafi A fallið niður. Þetta að mínu mati stenst ekki nánari skoðun,“ segir í gæsluvarðhaldskröfunni, samkvæmt úrskurði héraðsdóms.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Aldrei fleiri alvarleg ofbeldisbrot

Aldrei hafa fleiri alvarleg ofbeldisbrot verið skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en á fyrstu níu mánuðum ársins. Brotin hafa ríflega tvöfaldast á fimmtán árum. Lögreglan rannsakar nú hvort saknæmt athæfi hafi átt sér stað þegar kona á sextugsaldri lést um helgina. Tveir eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Hinir grunuðu og konan þekktust

Tveir karlmenn á fimmtugsaldri eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um manndráp. Hin látna er kona á sextugsaldri og hefur samkvæmt heimildum fréttastofu tengsl við mennina sem eru á fimmtugsaldri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×