Innlent

Eigin­kona hins látna grunuð um að hafa stungið hann með hnífi í mars

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Ólafsfirði.
Frá vettvangi á Ólafsfirði. Vísir/Tryggvi Páll

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur til rannsóknar nokkur mál þar sem talið er að maðurinn, sem fannst látinn í íbúð á Ólafsfirði fyrir rúmri viku, og eiginkona hans, sem var viðstödd þegar hann lést, hafi átt í átökum sín á milli. Meðal annars er konan grunuð um að hafa stungið manninn, sem nú er látinn, með eggvopni í mars síðastliðnum.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar frá 5. október síðastliðnum um gæsluvarðhald yfir konunni. Hún var handtekin ásamt þremur öðrum aðfaranótt 3. október síðastliðinn þegar tilkynning barst lögreglu á Ólafsfirði um að karlmaður hafi verið stunginn til bana í íbúð við Ólafsveg á Ólafsfirði. 

Konan, sem var eiginkona mannsins, sat í gæsluvarðhaldi þar til 7. október þegar henni var sleppt úr haldi ásamt annarri konu, sem var handtekin á sama tíma. Nú situr karlmaður enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hann var úrskurðaður í fjögurra vikna varðhald á þriðjudag.

Úrskurður Landsréttar um gæsluvarðhald yfir eiginkonunni var kveðinn upp 5. október síðastliðinn en var ekki birtur á vef Landsréttar fyrr en í gærkvöldi. Þar kemur fram að gögn bendi til að upphaf málsins hafi verið að hinn látni hafi sent einstakling, sem sé sennilega vitni í málinu, á heimilið við Ólafsveg að sækja eiginkonu sína. 

Þar hafi hún virst vera við neyslu á áfengi og hugsanlega öðrum vímugjöfum. Sá sem hinn látni hafi sent til að sækja konu sína hafi snúið til baka og tjáð manninum að hún hafi ekki viljað koma með honum. Þá hafi hinn látni farið sjálfur á staðinn og atburðarrás hafist sem hafi lokið með því að hann hafi verið stunginn til bana og maðurinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, hafi hlotið alvarlega áverka eftir hníf. 

Enn sé ekki vitað hver hafi veitt hinum látna þá áverka sem virðast hafa leitt til dauða hans. Ýmislegt bendi þó til að hinn látni og sá sem nú situr í gæsluvarðhaldi hafi átt í átökum þar sem hnífi var beitt. Rannsókn sé þó ekki komin það langt. Hafa skal í huga að þessar upplýsingar voru ritaðar strax 3. október og því líklegt að lögregla sé komin lengra á veg í rannsókn sinni nú, tíu dögum síðar. 


Tengdar fréttir

Húsráðandi á vettvangi manndrápsins látinn laus

Kona, ein þeirra þriggja sem handtekin voru grunuð um aðild að manndrápi á Ólafsfirði aðfaranótt sunnudags, er laus úr haldi. Konan var húsráðandi á heimilinu þar sem karlmaður fannst látinn af völdum stungusára. Réttarkrufning hefur farið fram á hinum látna. Nokkurra vikna bið gæti verið eftir niðurstöðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×