Innlent

Per­sónu­legar erjur og mis­munandi á­herslur áður komið í veg fyrir sam­einingu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að skiptar skoðanir starfsfólks stofnananna breytist ekki við sameiningu. En heilbrigð umræða og skoðanaskipti séu af því góða.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að skiptar skoðanir starfsfólks stofnananna breytist ekki við sameiningu. En heilbrigð umræða og skoðanaskipti séu af því góða. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skóg­ræktar­stjóri segir mikil­vægt að halda því til haga að fjöl­margar til­raunir til að sam­eina Skóg­ræktina og Land­græðsluna hafi klúðrast í gegn um tíðina. Hann er hóf­lega bjart­sýnn á að það takist í þetta skiptið en ætlar að leggja sig allan fram.

Mat­væla­ráð­herra til­kynnti ríkis­stjórninni í gær að hún hygðist sam­eina Skóg­ræktina og Land­græðsluna í eina stofnun.

Þetta hefur í raun verið í um­ræðunni allt frá því að land­græðslu­hlut­verkið var tekið af Skóg­ræktinni og Land­græðslan stofnuð árið 1914.

„Það hefur verið reynt áður og það hefur eitt og annað komið í veg fyrir það; skoðanir fólks, per­sónu­legar erjur, mis­munandi á­herslur. Og svo má ekki gleyma að fyrir suma er stað­setning höfuð­stöðvanna mikið mál,“ segir Þröstur Ey­steins­son skóg­ræktar­stjóri.

Hann segir að stað­setning höfuð­stöðvanna skipti ekki nokkru máli fyrir starf­semi stofnunarinnar sjálfrar en þetta sé byggða­mál fyrir heima­menn annars vegar á Egils­stöðum, þar sem höfuð­stöðvar Skóg­ræktarinnar eru nú, og hins vegar íbúa í Gunnars­holti á Rang­ár­völlum, þar sem Land­græðslan er.

Fjöl­margar til­raunir hafa verið gerðar til sam­einingar og sumar gengið lengra en sú sem nú er hafin.

„Það verður ekkert auð­velt að sam­eina. Það er kúnst. Það er eitt­hvað sem að er alveg hægt að klúðra sko. Þannig að það skiptir mjög miklu máli að fólk sé með­vitað um það,“ segir Þröstur.

Og ertu bjart­sýnn á að það verði loksins að þessu núna?

„Það stendur til að reyna... Ég svo sem veit ekkert hvort ég eigi að vera bjart­sýnn eða svart­sýnn. Ég mun vinna að því að þetta gerist á far­sælan hátt. Það er það sem skiptir máli.“

Nokkur rígur hefur verið á milli stofnananna í gegn um árin - Þröstur vill reyndar ekki lýsa því sem ríg heldur eðli­legum skoðana­skiptum. Fólk innan nýrrar stofnunar muni auð­vitað á­fram hafa skiptar skoðanir.

Hann sér þó tæki­færi í sam­einingunni - helst í lofts­lags­málum. Stórum mark­miðum þurfi að ná hér á landi á næstu árum.

„Öflugri stofnun sé rétt að málum staðið, ef það tekst að búa til öfluga stofnun úr þessu, þá ætti hún að bjóða upp á mögu­leika á að gera það betur heldur en tvær stofnanir,“ segir Þröstur.

„Gaslýsingar og orðaofbeldi“

Skemmst er að minnast hitamáls sem kom upp á milli starfsmanna Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í mars á þessu ári í umræðum á Facebook-hópnum Áhugafólk um landgræðslu. 

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, gagnrýndi þar harðlega greinaskrif Þórunnar Wolfram, sviðsstjóra hjá Landgræðslunni, sem birtust á Kjarnanum. Aðalsteinn setti sig þar helst á móti þeirri skoðun Þórunnar að skógrækt með innfluttum tegundum væri skaðleg íslenskri náttúru.

„Starfsfólk Landgræðslunnar sem hefur engan áhuga á landgræðslu. Er nokkur furða þó margir velti því fyrir sér hvort slíka stofnun sé á vetur setjandi?“ skrifaði Aðalsteinn meðal annars í umræðum sem sköpuðust í hópnum.

Þórunn brást við skömmu síðar:

skjáskot/facebook

„Ég frétti af því að Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri Skógræktarinnar hafi sett hér inn færslu með grein minni úr Kjarnanum með niðurlægjandi ummælum um mig og stofnunina sem ég starfa hjá. Við taka svo gaslýsingar og orðaofbeldi.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×