Ríkisútvarpið greinir frá því að óskað hafi verið eftir því að geðlæknir meti hversu mikil alvara hafi verið fólgin í skilaboðum sem karlmennirnir sendu sín á milli. Þar ræddu þeir reglulega um að vilja gera fólki mein.
Núverandi og fyrrverandi þingmenn Pírata bar á góma í slíkum skilaboðum mannanna á milli. Sömuleiðis sósíalistarnir Gunnar Smári Egilsson og Sólveig Anna Jónsdóttir. Þá hefur komið fram að mennirnir höfðu á orði að drepa lögreglumenn á fyrirhugaðri árshátíð þeirra.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er reglulega gerð krafa um geðmat þegar fólk er sakað um brot af þessum toga. Þá er geðlæknir fenginn til að meta marga hluti. Tekin eru viðtöl við mennina, þeir settir í próf og þá verða skilaboð mannanna skoðuð. Reikna má með því að niðurstaða úr greiningu liggir fyrir eftir einhverjar vikur. Þá mun einnig liggja fyrir sakhæfismat.
Lögregla lagði í umfangsmiklum aðgerðum sínum, handtökum og húsleitum, fyrir tæpum fjórum viku hald á skotvopn. Karlmennirnir eru taldir hafa framleitt og breytt skotvopnum. Þeir hafi notað þrívíddarprentara til verksins.
Mat geðlæknis á alvarleika samskipta mannanna gæti spilað lykilhlutverk í ákvörðun um hvort karlmennirnir verði ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverk eða fyrir vopnalagabrot.
Karlmennirnir voru báðir úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald á föstudaginn. Þeir eru þó lausir úr einangrun sem þeir hafa sætt frá því þeir voru handteknir. Annar hafði rétt losnað úr vikulangri einangrun þegar hann var handtekinn.
Verjendur beggja kærðu úrskurðinn á föstudaginn til Landsréttar. Má reikna með niðurstöðu í Landsrétti á morgun.