Á vef Veðurstofunnar segir að jökulhlaup úr Grímsvötnum haldi áfram að berast í Gígjukvísl, en sig íshellunar í Grímsvötnum nemur nú um ellefu metrum. miðað við sjö metra á sama tíma í gær.
„Frá því snemma í gærmorgun hafa sést merki um hlaupvatn í Gígjukvísl við þjóðveg 1, bæði á vefmyndavélum og vatnshæðamæli. Gera má ráð fyrir því að rennsli þar haldi áfram að vaxa og nái hámarki um það bil sólarhring seinna en hámarksrennsli út úr Grímsvötnum. Hámark þessa hlaups niðri við þjóðveg mun því jafnast á við venjulegt sumarrennsli í Gígjukvísl og mun ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Engar markverðar breytingar hafa sést á skjálftavirkni í eldstöðinni í Grímsvötnum samhliða þessum atburði og engin gosórói mælist. Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans munu halda áfram að vakta Grímsvötn náið næstu sólarhringana og verða birta upplýsingar eftir því hvernig atburðurinn þróast,“ segir í tilkynningunni.