Erlent

Konur og börn flest þeirra sem fórust í ferjuslysi í Nígeríu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil flóð hefur gert víða um Nígeríu undanfarna vikur. Þessi mynd er frá Kogi-ríki í norðanverðu landinu.
Mikil flóð hefur gert víða um Nígeríu undanfarna vikur. Þessi mynd er frá Kogi-ríki í norðanverðu landinu. AP/Fatai Campell

Að minnsta kosti 76 fórust þegar ferju hvolfdi í Anambra-ríki í suðausturhluta Nígeríu á föstudag. Flest þeirra látnu voru konur og börn sem voru að reyna að komast undan flóðum sem hafa gert á svæðinu.

Fjölmiðlar í Ogbaru í Anambra segja að í það minnsta áttatíu manns hafi verið um borð í bátnum. Fólkið var á leiðinni á Nkwo-markaðinn í Ogbakuba þegar honum hvolfdi. Samkvæmt sumum heimildum bilaði vél bátsins og rakst hann á brú áður en honum hvolfdi.

Viðbragðsaðilum hefur reynst erfitt að leita að fólki þar sem vatnsstaða er afar há. Mikil flóð hafa verið í ríkinu upp á síðkastið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, vottaði fjölskyldum þeirra sem fórust virðingu sína og fyrirskipaði endurskoðun öryggisráðstafana á samgönguferjuflota landsins.

Báta- og ferjuslys eru sögð fremur algeng í Nígeríu en í flestum tilfellum verða þau vegna þess að bátar eru ofhlaðnir eða öryggisráðstöfunum er ábótavant.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×