Fótbolti

Einn látinn eftir að lögregla beitti táragasi á áhorfendur sem ruddust inn á völlinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gimnasia flýja völlinn.
Gimnasia flýja völlinn. Gustavo Garello/Jam Media/Getty Images

Í það minnsta einn er látinn eftir að lögregla beitti táragasi á áhorfendur fyrir utan heimavöll Gimnasia í Argentínu á meðan leik liðsins gegn Boca Juniors stóð yfir.

Lögreglan skaut einnig gúmmíkúlum á áhorfendurna til að reyna að stöðva áhorfendur sem reyndu að komast inn á þá þegar pakkfullann leikvanginn.

Leikurinn var stöðvaður eftir aðeins níu mínútna leik þar sem áhorfendum sem reyndu að flýja óeirðirnar streymdi inn á völlinn.

Sergio Berni, öryggismálaráðherra í Buenos Aires, hefur staðfest að í það minnsta einn áhorfandi hafi látist í óeirðunum. Dánarorsök áhorfandans hafi verið hjartastopp. Þær fregnir hafa einnig verið staðfestar af yfirvöldum San Martin spítalans, en þar kemur fram að hinn látni hafi verið 57 ára gamall karlmaður.

Um það bil tíu þúsund aðdáendur voru staddir fyrir utan leikvanginn og komust ekki inn, en Berni segir að farið verði í það að rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis og útilokar ekki að einfaldlega hafi of margir miðar verið seldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×