Innlent

Viðkvæm lyf mögulega skemmst vegna rafmagnleysis

Eiður Þór Árnason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Starfsemi í hluta miðborgar Reykjavíkur er lömuð vegna rafmagnsleysis.
Starfsemi í hluta miðborgar Reykjavíkur er lömuð vegna rafmagnsleysis. Vísir/Vilhelm

Ekkert hefur verið hægt að afgreiða vörur í verslun Lyfju í Hafnarstræti frá því að rafmagnsleysi gerði vart við sig í miðborg og Vesturbæ Reykjavíkur um klukkan 16:30 í dag. Hætta er á því að viðkvæm lyf á borð við insúlín skemmist ef rafmagn kemst ekki fljótlega aftur á.

Tölvu- og kassakerfi apóteksins höfðu verið óvirk í um níutíu mínútur þegar fréttastofa náði tali af Alfreð Ómari Ísakssyni, lyfsala hjá Lyfju. Ekki er einu sinni hægt að nota reiðufé til að festa kaup á lyfseðilsskyldum lyfjum, lausasölulyfjum eða annarri hjúkrunarvöru.

Gætu einhver lyf skemmst út af þessu rafmagnsleysi?

„Já, við erum til dæmis með insúlín hérna inni og önnur stungulyf. Þetta er mjög viðkvæm vara gagnvart hitastigsbreytingum. Við verðum bara að meta það út frá þeirri tímalengd sem þessi lokun á sér stað og í framhaldi af því verðum við bara skoða það.“

Skammt frá Lyfju þurfa vonsviknir ferðamenn frá að hverfa á Bæjarins Bestu. Andri Snær, aðalsölumaður á Tryggvagötu segir að sölunni hafi verið haldið til streitu þar til allur hitinn var farinn og eftir lágu kaldar SS pylsur.

Hvernig hafa viðbrögðin verið?

„Það hafa í mesta lagi verið sorgarviðbrögð en allir eru skilningsríkir. Ég er ekki búinn að fá neinn reiðan enn þá svo það er gott.“

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×