Fótbolti

Stuðningsmenn Real Betis lögðu eitt frægasta torgið í Róm í rúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Real Betis létu vel í sér heyra í Róm í gær.
Stuðningsmenn Real Betis létu vel í sér heyra í Róm í gær. EPA-EFE/ETTORE FERRARI

Gærkvöldið var ekki gott kvöld fyrir ítalska félagið Roma sem tapaði þá 2-1 á móti spænska félaginu Real Betis í Evrópudeildinni. Það var þó ekki það eina sem pirraði Rómverja í kringum leikinn í gær.

Heimamenn kvarta mikið undir framkomu og umgengni stuðningsmanna Real Betis í kringum leikinn og ekki að ástæðulausu.

Það er rusl út um allt og menn notuðu súlur á fornfrægum byggingum sem þvagskálar, skrifaði ítalska blaðið Fatto Quotidiano.

Það voru um fimm þúsund stuðningsmenn Betis á hinu fræga torgi Piazza del Popolo í gærkvöldi.

Ítalska blaðið La Repubblica segir að þeir hafi nánast teppalagt torgið með allskyns rusli og óþrifnaði. Sumir urðu líka uppvísir af því að kasta bjórflöskum í glugga á bar í Trastevere hverfinu.

Rómverjar komust yfir í leiknum með marki úr víti en spænska liðið jafnaði metin sex mínútum síðar og tryggði sér síðan sigur með marki Luiz Henrique tveimur mínútum fyrir leikslok.

Roma hefur tapað tveimur af þremur leikjum sínum í riðlinum en Real Betis er aftur á móti á toppnum með fullt hús stiga og markatöluna 7-3.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.