Innlent

Þáði ofgreidd laun upp á 10 milljónir frá Úrvinnslusjóði

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Úrvinnslusjóður hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir störf sín undanfarið, nýjast vegna ofgreiddra launa upp á rúmlega 10 milljónir.
Úrvinnslusjóður hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir störf sín undanfarið, nýjast vegna ofgreiddra launa upp á rúmlega 10 milljónir. Úrvinnslusjóður

Fram­kvæmda­stjóri Úr­vinnslu­sjóðs er sagður hafa þegið laun upp á rúmlega 10 milljónir króna und­an­far­in sjö ár, fyr­ir starf sem framkvæmdastjóri sjóðsins, starf sem sem lagt var niður árið 2015.

Stundin greinir frá því að Ólafur Kjartansson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs frá árinu 2003 hafi látið sjóðinn halda áfram að greiða sér fyrir störf sem hann sinnti ekki lengur.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur fjár­málaráðuneytið til­kynnt stjórn Úrvinnslu­sjóðs að það telji Ólaf ekki hafa verið í „góðri trú“ þegar hann lét sjóðinn halda áfram að greiða sér aukalega fyrir störf sín.

„Af þessu er ljóst að ekki átti að koma til frekari greiðslna til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs samkvæmt ákvörðun kjararáðs og hefur honum því verið greidd umrædd þóknun án heimildar frá því að ákvörðun kjararáðs kom til framkvæmda á árinu 2015,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytis.

Stór hluti þess sem Ólafur er sagður hafa fengið greitt án heimildar eru hins vegar fyrndar kröfur og mun hann því halda nærri helmingi þess sem hann fékk ofgreitt.

Ríkisendurskoðun skilaði svartri skýrslu til Alþingis um Úrvinnslusjóð. Þar segir meðal annars að sjóðurinn réði ekki við hlutverk sitt og hefði afar takmarkað eftirlit með því að úrgangi sé sannanlega ráðstafað með þeim hætti sem samið er um og sjóðurinn greiðir fyrir yfir tvö milljarða króna á ári hverju.

Í umfjöllun Stundarinnar vildi Magnús Jóhannesson, formaður stjórnar Úrvinnslusjóðs, ekki tjá sig um málið eða hvort sjóðurinn muni taka ákvörðun um framtíð Ólafs innan sjóðsins. „No comment,“ er haft eftir Magnúsi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.