Erlent

Mannskaði í snjóflóði í Himalajafjöllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Himalajafjöllum í Uttarkhand á Indlandi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá Himalajafjöllum í Uttarkhand á Indlandi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Að minnsta kosti fjórir fjallgöngumenn eru látnir og fjölda er saknað eftir að gönguhópur lenti í snjóflóði í Himalajafjöllum á Indlandi. Hluti hópsins er talinn fastur í jökulsprungu.

Snjóflóðið féll þegar 34 fjallgöngunemar og sjö leiðbeinendur voru á leið niður af tindi Draupadi Danda-2 í Uttarakhand-ríki á norðanverðu Indlandi í morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Talið er að átta manns hafi verið bjargað en aðrir séu fastir í sprungunni.

Indverskir fjölmiðlar segja að líklegt sé að tala látinna eigi eftir að hækka verulega. Björgunarstarfi var hætt fyrir nóttina vegna úrkomu. Indverski flugherinn leitaði meðal annars úr lofti í dag.

AP-fréttastofan fullyrðir að í það minnsta tíu nemar hafi farist í snjóflóðinu.

Aðeins vika er liðin frá því að Hilaree Nelson, eins fremsta fjallaskíðakona heims, fórst í nepalska hluta Himalajafjalla. Hún fékk ofan í djúpa jökulsprungu eftir að hún komst á tind Manaslu-fjalls. Sama dag og hún hvarf fórst einn og tugir slösuðust í snjóflóði neðar í fjallinu.


Tengdar fréttir

Fundu lík Hilaree Nelson í hlíðum Manaslu

Leitarteymi í Nepal hefur fundið lík bandarísku útivistarkonunnar Hilaree Nelson í hlíðum fjallsins Manaslu í Himalayja-fjöllunum. BBC greinir frá.

Leita heimsþekkts göngugarps eftir slys í Nepal

Fjallgöngukonunnar Hilaree Nelson er saknað eftir að hafa toppað Manaslu í Nepal, áttunda hæsta fjall í heimi, á mánudag. Nelson var á leiðinni niður á skíðum þegar slysið varð. Talið er að hún hafi fallið í sprungu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×