Innlent

Kanna sameiningu NTÍ og Bjargráðasjóðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verið er að skoða tryggingavernd bænda vegna óvæntra áfalla í búskap.
Verið er að skoða tryggingavernd bænda vegna óvæntra áfalla í búskap. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur farið þess á leit við stjórn Bjargráðasjóðs að hún kanni möguleikann á því að sameinast Náttúruhamfaratryggingum Íslands, NTÍ.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem vísað er í að starfshópur um tryggingavernd bænda hafi nýverið skilað inn skýrslu til matvælaráðherra. Hópurinn var skipaður í fyrra, og var ætlað að greina stöðu tryggingaverndar bænda vegna óvæntra áfalla í búskap og gera tillögur að úrbótum.


Hvað er Bjargráðasjóður?

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 49/2009 um Bjargráðasjóð, er það hlutverk hans að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara. Bjargráðasjóður fjallar einkum um umsóknir um styrki vegna beinna tjóna á girðingum, túnum og heyi. Beint tjón á túnum getur t.d. stafað af óvenjulegum kulda, þurrka, óþurrka og kals.


Starfshópurinn lagði til þrjár tillögur. Sú fyrsta gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi en þó yrði ráðist í aðgerðir til að kynna betur fyrir bændum möguleika tryggingaverndar í núverandi mynd, auk setningar nýrrar reglugerðar og endurskoðunar á lögum um Bjargráðasjóð.

Önnur tillaga setti fram tvo kosti sem meðal annars fól í sér að mat verði gert á sameiningu Bjargráðasjóðs við Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða að sjóðurinn verði að deild innan NTÍ með sambærilegri iðgjaldainnheimtu.


Hvað er Náttúruhamfaratrygging Íslands?

Náttúruhamfaratrygging Íslands er opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja helstu verðmæti gegn náttúruhamförum. NTÍ bætir beint tjón af völdum: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.


Þriðja tillagan fól í sér umfangsmeiri uppstokkun á kerfinu, sem innifelur meðal annars í sér valkvæða uppskerutryggingu byggða á iðgjöldum.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Matvælaráðherra hefur farið þess á leit við stjórn Bjargráðasjóðs að hún kanni möguleika á framkvæmd tillögu um sameiningu Bjargráðasjóðs og NTÍ og skili greinargerð að því loknu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×