Fótbolti

Baulað á Hákon sem þurfti bara nýja skó

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson sýndi hvernig skórnir rifnuðu allsvakalega í leiknum í Gautaborg í gær.
Hákon Rafn Valdimarsson sýndi hvernig skórnir rifnuðu allsvakalega í leiknum í Gautaborg í gær. Skjáskot/Sportbladet.se

Eftir að hafa fengið á sig eitt mark í bláum skóm hélt Hákon Rafn Valdimarsson marki sínu hreinu í rauðum skóm í góðum 3-1 sigri Elfsborg gegn IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Hákon, sem er uppalinn hjá Gróttu og ver mark U21-landsliðs Íslands, vakti reiði stuðningsmanna Gautaborgar á Gamla Ullevi leikvanginum um miðjan seinni hálfleik í gær. Aftonbladet segir að síðustu ár hafi nokkrir markmenn í sænsku deildinni stundað það að ýkja eða ljúga til um meiðsli til að stöðva leiki þegar pressan frá andstæðingum sé orðin mikil.

Hákon var aftur á móti ekki með neinn leikaraskap. Takkaskórnir hans voru einfaldlega í tætlum, eins og hann sýndi í viðtölum eftir leik, og hann varð að fara af velli til að skipta um skó eins og sjá má hér að neðan.

„Skórinn minn fór bara í sundur. Eins og þið sjáið þá gat ég ekki haldið áfram að spila,“ sagði Hákon og tók upp rifna skóinn.

„Ég vissi að ég þyrfti að skipta. Ég spurði dómarann og hann sagði „ekkert mál“,“ sagði Hákon.

Dómarinn var ekki jafn geðgóður nokkrum mínútum síðar þegar hann rak Marcus Berg, framherja Gautaborgar, af velli eftir kjaftbrúk. Manni fleiri bættu leikmenn Elfsborg við marki og innsigluðu 3-1 sigur, eftir að Sveinn Aron Guðjohnsen hafði komið inn á sem varamaður í uppbótartíma.

Með sigrinum komst Elfsborg upp fyrir Gautaborg í 7. sæti deildarinnar en liðið er fimm stigum á eftir þremur næstu liðum, þegar 24 umferðir af 30 eru búnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×