Fótbolti

Magnaðar lokamínútur þegar AC Milan lagði Empoli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ante Rebic og Rafael Leao gerðu út um leikinn.
Ante Rebic og Rafael Leao gerðu út um leikinn. vísir/Getty

Meistaralið AC Milan komst í hann krappan þegar liðið heimsótti Empoli í síðasta leik dagsins í ítölsku úrvalsdeildinni.

Empoli hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu en það tók meistarana drjúgan tíma að brjóta varnarmúr heimamanna á bak aftur.

Raunar kom fyrsta markið ekki fyrr en á 79.mínútu þegar varamaðurinn Ante Rebic náði forystunni fyrir AC Milan eftir undirbúning Rafael Leao.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Nedim Bajrami metin fyrir Empoli og heimamenn sáu fram á að ná í sterkt stig.

Gestirnir settu þá allt kapp í sóknina og á 94.mínútu náði Fode Toure forystunni aftur fyrir AC Milan sem voru ekki hættir því Rafael Leao gulltryggði sigurinn á 96.mínútu með marki eftir stoðsendingu frá Rebic.

AC Milan með sautján stig í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Napoli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.