Innlent

Mann­ekla veldur 77 prósent lengri af­greiðslu­tíma nauðgunar­mála

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglumenn og saksóknarar eru með samviskumbit yfir að komast ekki yfir meira.
Lögreglumenn og saksóknarar eru með samviskumbit yfir að komast ekki yfir meira. Vísir/Vilhelm

Meðalafgreiðslutími nauðgunarmála hjá lögreglu hefur lengst um 77 prósent frá árinu 2016; var þá 232 en var 413 dagar árið 2021. Þá hefur meðalafgreiðslutími kynferðisbrotamála almennt fjölgað um 33 prósent; úr 253 dögum í 343 daga.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps um málsmeðferðartíma kynferðisbrotamála en það er Morgunblaðið sem greindi frá.

„„Staðan er alls ekki nógu góð. Það lá fyrir og þess vegna var ákveðið að fara í meiri greiningarvinnu til þess að finna út hverjir helstu orsakaþættirnir væru, hvað lægi að baki og hvort það væri eitthvað hægt að bæta verklagið,“ hefur Morgunblaðið eftir Margréti Unni Rögnvaldsdóttur saksóknara, sem fór fyrir starfshópnum.

Hún segir ástæður lengri afgreiðslutíma fyrst og fremst mannekla.

„Fólk kemst hreinlega ekki í verkefnin sem það á að leysa. Það eru bara of mörg verkefni.“

Í skýrslunni segir að stór hluti þeirra mála sem tók langan tíma að afgreiða lá óhreyfður í einhvern tíma. Ástæðan er aftur sögð sú sama: Mannekla. Hjá rannsóknardeildum, ákærusviði og saksóknara.

„Í viðtölum við rannsóknarlögreglumenn, lögreglufulltrúa og ákærendur kom fram að starfsfólk sé með samviskubit yfir því að ná ekki að sinna verkefnum sínum og upplifunin sé oft á tíðum að vera eins og hamstur á hjóli,“ segir í skýrslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×