Innlent

Dæmdur fyrir ítrekuð brot gegn barnungri frænku en gengur laus á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að nóg væri að manninum væri gert að sæta farbanni á meðan framsal hans væri til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.
Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að nóg væri að manninum væri gert að sæta farbanni á meðan framsal hans væri til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem var dæmdur í sex ára fangelsi í heimalandi sínu í Evrópu fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn barnungri frænku sinni hefur verið úrskurðaður í farbann. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum en dómstólar hér á landi höfnuðu kröfunni.

Yfirvöld í heimalandi mannsins óskuðu eftir að hann yrði handtekinn og framseldur til Ítalíu til að hægt væri að láta hann afplána fangelsisrefsinguna. Endanlegur dómur yfir manninum ytra var staðfestur í júní 2020.

Samkvæmt handtökuskipuninni var maðurinn sakfelldur fyrir að nauðga frænku sinni með ofbeldi og hótunum. Ríkissaksóknari hér á landi fól lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að krefjast gæsluvarðhalds yfir manninum í ljósi alvarleika brotanna. Til vara var krafist sjötíu daga farbanns yfir honum þar sem talið var að hann myndi reyna að komast úr landi eða koma sér undan með öðrum hætti.

Maðurinn er sagður án lögheimilis og með lítil tengsl við Ísland þrátt fyrir að hann hafi verið hér á landi frá því í febrúar árið 2014 og hann búi hér með konu sinni. Hann hafi jafnframt stundað atvinnu á Íslandi.

Féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á að hætta væri á að maðurinn reyndi að komast úr landi eða forða sér. Þrátt fyrir það taldi hann ekki sýnt fram á að nauðsynlegt væri að hann sætti gæsluvarðhaldi. Farbann væri fullnægjandi til að koma í veg fyrir að hann kæmi sér undan.

Lögreglustjórinn skaut málinu til Landsréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms á mánudag. Maðurinn sætir því farbanni til 30. nóvember.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.