Innlent

Breyta fyrirkomulagi launagreiðslna ríkisstarfsmanna eftir gagn­rýni

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ríkisstarfsmenn gagnrýndu það í sumar að laun þeirra yrðu ekki greidd út fyrr en eftir verslunarmannahelgi. 
Ríkisstarfsmenn gagnrýndu það í sumar að laun þeirra yrðu ekki greidd út fyrr en eftir verslunarmannahelgi.  Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur heimilað Fjársýslunni að breyta fyrirkomulaginu á launagreiðslum ríkisstarfsmanna eftir mikla gagnrýni á fyrirkomulagið. Með breytingunni verða laun greidd út fyrsta hvers mánaðar, óháð því hvort dagsetningin lendi á helgi eða lögbundnum frídegi.

Töluverðrar óánægju gætti meðal ríkisstarfsmanna í sumar þegar greint var frá því að laun yrðu ekki greidd út fyrr en eftir verslunarmannahelgi. Fjársýslan sagði það ekki nýtt af nálinni en lögum samkvæmt væru laun ekki greidd út fyrr en fyrsta virka dag hvers mánaðar.

Formaður Sameykis sagði í samtali við fréttastofu í lok júlí að breyta þyrfti því fyrirkomulagi að laun væru alltaf greidd út fyrsta virka dag hvers mánaðar. 

Þá höfðu fjölmargir ríkisstarfsmenn samband við fréttastofu og sögðust ekki kannast við fullyrðingar Fjársýslunnar, þeir hefðu nánast alltaf fengið laun sín greidd síðasta virka dag hvers mánaðar þegar fyrsti dagur lenti ekki á virkum degi. Að sögn Fjársýslunnar væri það kerfum viðskiptabankanna að kenna. 

Laun greidd út fyrsta hvers mánaðar án undantekninga

Fjársýslan hefur þó tekið athugasemdir ríkisstarfsmanna til sín um seinkun útgreiðslu launa og ákveðið að gera breytingar á fyrirkomulaginu. 

Að því er kemur fram í tilkynningu á vef Fjársýslunnar verða laun nú greidd án undantekninga fyrsta hvers mánaðar með heimild fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

„Ákvörðun ráðuneytisins er að frá og með næstu mánaðamótum verða laun ríkisstarfsmanna ávallt greidd út fyrsta dag mánaðar alla mánuði ársins. Á það einnig við þegar fyrsta dag mánaðar ber upp á helgi eða lögbundinn frídag,“ segir í tilkynningunni.

Þetta á næst við um mánaðarmótin en fyrsti október ber upp á laugardag.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.